Stöðvum óstjórn

Sigurður Bjarnason skrifar:

Það er  ekki  óeðlilegt að lækka skatta þegar góð ástæða er fyrir því og ástæðan er aldrei betri en þegar þjóðartekjur rjúka upp.

Það má segja að þjóðarbúið hafi verið komið í gott ástand árið 2014, hvað varðar þjóðartekjur og stærð ríkissjóðs eftir hrun skellinn. Tekjur ríkis á hvern landsmann höfðu ekki verið meiri frá því árið 1998 nema tvisvar sinnum, árin 2005 og 2007 og ekki munaði nema 1,1% á þjóðartekjum á hvern einstakling á milli Íslands og Bandaríkjanna. Frá árinu 2014 til ársins 2018 hækkuðu þjóðartekjur um 45,75%, sem verður að teljast nokkuð gott þar sem þjóðartekjur Evrópusambandsins hækkuð einungis um 0,47% á sama tíma, Þýskalands um 2,5% og Bandaríkjanna um 16,96%. Til að átta sig betur á þessum tölum, þá voru þjóðartekjur Íslendinga á hver einstakling í dollurum komnar upp í 73.190 (nominal) árið 2018, voru 62.794 í Bandaríkjunum, voru 47.620 í Þýskalandi og 36.570 í Evrópusambandinu. Sem sagt, Ísland var með meira en tvisvar sinnum hærri þjóðartekjur á hvern einstakling heldur en meðaltal í ESB árið 2018.

Eftir árið 2014 hefði verið upplagt að lækka skatta. Þjóðartekjur á hvern mann það ár í dollurum voru 54.242. Til samanburðar þá var öflugasta efnahags ríki Evrópu, Þýskaland, með 47.961 dollara á hvern mann árið 2014 og var ekki komið yfir 50 þúsund dollara árið 2018.

En núverandi stjórnarsamstarf er greinilega hreinræktuð vinstri stjórn og þekkir því ekki hugtakið skattalækkun og lét sér ekki nægja að auka tekjur sínar í réttu hlutfalli við auknar þjóðartekjur, sem voru eins og áður segir 45,75%, og hefði verið nógu skammarlegt í slíku góðæri heldur jók þær um 49,83% á þessu tímabili. Ríkistekjur fóru úr því að vera 560,9 Milljarðar árið 2014 í að vera 840,4 Milljarðar árið 2018. Ef ríkið hefði aukið tekjur sínar til jafns við auknar þjóðartekjur á þessu tímabili, hefðu tekjur ríkisins orðið 817,5 Milljarðar árið 2018, en hinn gráðugi vilji ríksstjórnar Kartrínar tók sér auka 22,89 Milljarða meira af landsmönnum, en auknar þjóðartekjur gáfu tilefni til, á enn einu frábæru ári til skattalækkunar.

Katrín hefur síðan tilkynnt í sjónvarpi að hún væri að flytja 2 Milljarða frá ríka fólkinu til hinna fátæku. Það eru 8,7% af þessari skattlagningu umfram hækkun þjóðartekna árið 2018.

Skoðum hvað ríkið hefur innheimt aukalega frá árinu 2014 til og með árinu 2019.

Eftir árið 2014 hefði ríkið getað leyft fólki að njóta ávinnings góðærisins með því að lækka skatta og skilja þannig eftir tæplega 1.050 Milljarða hjá almenningi á þessum 5 árum, sem hefði komið sér sérstaklega vel hjá fólki sem hafði misst allt í hruninu og var að rembast við að koma undir sig fótum aftur. En þess í stað fór allt þetta fé til ríkisins og ekki er hægt að sjá að það hafi nokkuð verið lagað í grunnstoðum þjóðfélagsins eins og löggæslu, vegagerð, menntamálum og heilbrigðismálum, né heldur bætt kjör öryrkja og aldraða. Samt, eru svo til allir stjórnmálaflokkar ennþá að tala um þörfina í dag fyrir að styrkja innviði ríkisins. Til hvers? Ekki tókst það með auka 1.050 Milljarða innspýtingu yfir 5 ára tímabil.

Hvað þarf þetta fólk á Alþingi mikið fé svo það sjáist einhver þjóðfélagslegur árangur af vinnu þeirra?

Árið 2019 með 330,8 Milljarða, eða 59%, meiri tekjur en hið góða ár 2014, þá á að setja upp vegatolla fyrir nýjum framkvæmdum og enn er verið að tala um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Að styrkja innviði ríkisins og niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er farið að hljóma eins og rispuð plata. Það er ekki hægt að byggja upp og rífa niður sama hlutinn á sama tíma. Eða tilheyrir heilbrigðisþjónustan kannski ekki innviðum lengur?

Það virðist því ekki þjóna neinum sérstökum tilgangi fyrir þjóðfélagið að þetta fólk á Alþingi fái meira fé í ríkisreksturinn, það lagast ekkert. En svo það sé nú alveg á hreinu, þá eru peningarnir ekki vandamálið, það er fólkið sem meðhöndlar þá.

Ef við vissum ekki betur, þá mætti halda að þjófur gengi laus í hinu opinbera kerfi, með lykil sem gengur að öllu.

Fyrst það fannst engin ástæða til að lækka skatta á árunum 2014 til 2019 með tilliti til fjárhagsstöðu landsins og hina gríðarlegu aukningu þjóðartekna, þá er ekki hægt að búast við því að heyra þessi orð í framtíðinni af þessu fólki, nema í formi kosningaloforða sem iðulega eru hvort eð er svikin, að öllu eða hluta.

Fjármunir fuðra upp á hinu háa Alþingi og varla finnst nokkur einstaklingur þar, sem ekki er tilbúinn að selja landið í hendur erlends yfirvalds. Það er erfit að stöðva óstjórn á Alþingi, en sölu landsins og á landsins gæðum er hægt að stöðva með ábyrgum forseta. Stjórnmálaflokkar mynda stjórn með stjórnarsáttmála og nota hann sem afsökun á sviknum kosningaloforðum, en Forseti Íslands getur þetta ekki. Kjósum rétt.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR