Varnir Íslands á óvissutímum

Eins og öllum er kunnugt er tvíhliða samkomulag milli Bandaríkjanna og Íslands, varnarsamningurinn svonefndi, sem hefur verið gildi síðan 1951 þegar Bandaríkjaher steig á land á ný eftir brotthvarf í lok seinni heimsstyrjaldar.  Þessi samningur hefur tekið breytingum en hefur haldið inntaki sínu allar götur síðan. Bandaríkjaher kom í óþökk margra Íslendinga og ekki síst þeirra sem hallast til vinstri í pólitík. Herseta þeirra fór einnig fyrir brjóst þeirra þjóðhollra Íslendinga sem höfðu reist nýtt lýðveldi á Þingvöllum 1944  og var enn í vöggu og í raun ekki áratugar gamalt. En tímar voru þá válindir og kalda stríðið skellti skelk í bringu marga og hætta á kjarnorkustyrjöld var aldrei langt undan. 

Kalda stríðið rann sitt skeið og um 1990 var því lokið.  Fljótlega eftir það fór Kaninn að huga að breytingum en lét lítið á bera. Ljóst var þó um aldarmótin 2000 að þeir stefndu á brott og það sem ýtti undir og hvatti þá áfram til að láta verða af, var að Bandaríkin hófu tvær styrjaldir sem voru afdrifaríkjar og reyndu mjög á þolrif Bandaríkjahers.  Stríðin í Afganistan og Írak voru naglarnir í líkkistu veru Bandaríkjahers á Íslandi. Fyrst fór þyrlusveitin undir því yfirskyni að hennar væri þörf í aðgerðum erlendis og svo restin af mannskapnum.

Án þess að kveðja kóng né prest fór stríðsmaðurinn af landinu 2006 og bóndinn sem húkkti áfram á skerinu, grátbað hann að fara ekki. Hann fór samt. Þessa leksíu ættu Íslendingar ætíð að hafa í huga. Vinir koma og fara og þeir hugsa fyrst og fremst um eigin hagsmuni. Nú sýnir stríðsmaðurinn áhuga á að koma til baka, að minnsta kosti að byggja nýjan kastala á Miðnesheiði, ef hann skyldi þurfa að koma til baka í flýti.  Skemmst er að minnast heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, hingað til lands og voru varnarmál sérstaklega rædd. Svo mikilvæg voru þau málefni, að Bandríkjamenn meira segja íhuga fríverslunarsamning við litla Ísland.

En þurfa Íslendingar að vera í samstarfi við Bandaríkin í varnarmálum og undir hvaða formerkjum?  Hver er reynslan síðan 2006?  Getum við treyst Bandaríkjamönnum til að koma okkur til varnar ef á reynir? Já, alveg örugglega ef það þjónar hagsmunum Bandaríkjanna. Það er ótvírætt að vera Íslands í NATÓ er lífsnauðsynleg fyrir öryggi landsins enda hafa íslenskir ráðamenn enga tilburði uppi til að axla ábyrgð á eigið öryggi og þeir kosta sem minnstu til og setja málaflokkinn alfarið á ábyrgð annarra bandalagsþjóða í NATÓ. 

Undanfarin reynsla sýnir að núverandi Bandaríkjaforseti er til alls líklegur og má teljast það vera lukka að hann hefur ekki enn komið auga á Ísland á landabréfakorti og engin opinber ummæli hafa verið höfð eftir hann um landið eða stöðu þess gagnvart Bandaríkjunum. Ef málefni landsins koma upp og hann fær einhver upplýsingar um landið, má víst vera að hann verði uppfræddur um að Ísland hafi verið náinn bandamaður BNA síðan í síðari heimsstyrjöld, að ríkjandi sé varnarsamningur milli ríkjanna og Ísland sé í NATÓ.  Fyrstu spurningar hans væri líklega, hversu stór er íslenski herinn og hvað eru Íslendingar að leggja fram til sameiginlegra varna! Fátt verða þá um svör og hætt við að þá vilji hann herða þumalskrúfu á putta Íslendinga. Valdataka hans er minnsta kosti þörf áminning á þær Evrópuþjóðir sem hafa vilja sigla ölduna fríhendis og þar er Ísland engin undantekning. Putkimtjöldin hafa verið dregin frá sjónum margra ráðamanna í Evrópu og víða um heim, að heimurinn heldur áfram og hver þjóð verður að standa með sjálfum sér og engum er treystandi.

Íslendingar ættu að treysta böndin við Evrópuþjóðir en einnig við Bandaríkin í varnarmálum og gegnum NATÓ en á eigin forsendum og hagsmunum. Helsta hagsmunamálið er loftrýmisgæslan og hryðjuverkavarnir.  Þjóðaröryggisstefna Íslands ætti að vera skýr í þessum efnum og ef til vill ættu stjórnmálamenn að taka upp plan B og búast við að ef til vill þurfa Íslendingar að taka upp veskið, borga brúsann og ef til vill að leggja til mannskap til landvarna í fyrsta sinn.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR