Brynjólfur Þorkell Brynjólfsson, sem skipar 3. sæti Miðflokksins í SV-kjödæmi í komandi alþingiskosningum gerir athugasemdir við þá flóttamannastefnu sem fjórflokkurinn hefur rekið hér á landi án þess að spyrja þjóðina. Hann hann gerir athugasemdir við og vill ekki að Ísland taki á móti flóttafólki frá Afganistan enda ber íslenskur almenningur enga ábyrgð á því klúðri Bandaríkjamanna og NATO sem þar hefur átt sér stað. Hann vill þó hjálpa fólki frá Afganistan en á þeirra heimaslóðum og er hann þar í samhljómi við marga sem gera sömu athugasemdir við þá flóttamanna og hælisleitendastefnu sem hér hefur verið rekin og virðist ganga út á það að skapa hér tví-menningu og tvær þjóðir. Brynjólfur færir ágæt rök fyrir skoðun sinni í grein í Morgunblaðinu.
Annars vegar segir hann að hér á Íslandi þurfi að bæta og laga velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið og hins vegar segir hann að Ísland beri ekki ábyrgð á því sem er að gerast í Afganistan.
„Á sama tíma keppast íslenskir ráðamenn við að kalla yfir sig ábyrgð á því að trúarofstækishópur hafi tekið yfir hið fjarlæga land Afganistan eftir að stærsta herveldi heims heyktist á að halda úti hersveitum sínum þar,“ segir Brynjólfur í pistlinum.
Spyr hvort Íslendingar beri einhverja ábyrgð
Ekki verður annað sagt en að þessi ungi frambjóðandi sé hugaður að tala opinskátt um málið og ljóst að góða fólkið hérlendis mun ráðast á hann fyrir vikið. Enda má ekki tala um hælisleitendamálin á þessum nótum að mati vinstrimanna/góða fólksins.
Hann segir að atburðarásin í Afganistan hafi verið hröð en fyrirsjáanleg. „Valdabröltið í Afganistan stendur á tímamótum og augljóst að ný öfl og nýjar þjóðir munu nú sigla inn í kjölfarið. Eftir stendur sársaukafull og kostnaðarsöm tilraun við að breyta þjóð sem virðist ekki hafa verið tilbúin að berjast fyrir þessum breytingum sjálf. Gæti verið að heimamenn séu núna þrátt fyrir allt nær því að ráða eigin örlögum?“
Þá kemur Brynjólfur inn á það að ábyrgð Íslendinga á ástandinu í Afganistan sé engin. „Bera Íslendingar einhverja ábyrgð á því hvernig fór eins og ráðherrar ríkisstjórnarinnar keppast við að segja?“ spyr hann.
„Það er erfitt að sjá. Afskipti Íslendinga hafa fyrst og fremst falist í mannúðarstarfi og að veita afgönsku þjóðinni aðstoð við að nútímavæða samfélagið. Starf sem nú virðist koma fyrir lítið. Íslendingar hafa ekki farið með vopnum inn í Afganistan en hafa svarað ákalli um aðstoð, sem meðal annars hefur komið frá heimamönnum, og látið fé af hendi rakna til uppbyggingar.“
„Það er ekkert sem rökstyður það að Íslendingar beri sérstaka ábyrgð“
Að lokum segir Brynjólfur að það sé „fráleitt“ að taka sérstaklega á móti fólki frá Afganistan. „Það er ekkert sem rökstyður það að Íslendingar beri sérstaka ábyrgð á því hvernig fór í Afganistan. Áfram munu þau alþjóðlegu samtök sem hafa starfað þar reyna að aðstoða nauðstadda og vinna að mannúðarmálum. Við Íslendingar eigum að standa við skuldbindingar okkar gagnvart þessum samtökum og aðstoða þau við að hjálpa Afgönum heima við,“ segir hann.
„Það væri fráleit niðurstaða núna að fara að efna til sérstakra fólksflutninga frá Afganistan til Íslands í einhverri keppni ráðherra landsins við að beina sjónum frá því hvernig þeir eru að skilja við íslenska velferðarkerfið. Missum ekki sjónar á því sem skiptir mestu.“