Þýska öldin í sögu Íslands

Þýska öldin er það tímabil í Íslandssögunni þar sem þýskir kaupmenn voru ráðandi í utanríkisverslun Íslendinga og stunduðu einnig veiðar við Íslandsstrendur og útgerð frá íslenskum verstöðvum.

Elsta heimild um siglingu þýskra kaupmanna til Íslands er frá 1432 en frá því um 1470 voru komur þeirra árvissar og er þýska öldin talin hefjast um það leyti. Hún stóð svo alla 16. öldina, eða þar til einoknunarverslun var komið á í upphafi 17. aldar. Þýsku kaupmennirnir tilheyrðu miklu verslunarsambandi sem kallaðist Hansasambandið og réði nær allri verslun í Norður-Evrópu og við Eystrasalt. Þeir Hansakaupmenn sem hingað sigldu voru flestir frá Lubeck (Lýbiku), Hamborg og Bremen (Brimum). Voru tengsl Íslendinga við Þýskaland töluvert mikil á þessum tíma og ýmsir ungir Íslendingar fóru t.d. til Þýskalands til náms.

Englendingar höfðu verið allsráðandi í Íslandsverslun frá því um 1415 og kallast það tímabil enska öldin. Þegar þýsku kaupmennirnir komu á vettvang urðu víða átök á milli þeirra og Englendinga um verslunarhafnir og verstöðvar og kom stundum til bardaga. Þjóðverjar náðu smátt og smátt undirtökum í versluninni en Englendingar voru þó áfram við landið í einhverjum mæli, versluðu við Íslendinga og veiddu fisk.

Höfðuðstöðvar Hansakaupmanna voru í Hafnarfirði og má segja að þar hafi helsta höfn og útflutningsmiðstöð landsins verið á þeim tíma. Þar var fyrsta lútherska kirkjan á Íslandi reist, líklega 1433, og stóð hún þar til þýsku öldinni lauk. Þjóðverjar létu sér ekki nægja að versla hér, heldur hófu þeir útgerð, settust að á útvegsjörðum og réðu Íslendinga til að róa til fiskjar fyrir sig, og varð sumstaðar til svolítill vísir að sjávarþorpum. Þetta féll íslenskum bændum og höfðingjum illa því þeir áttu þá erfiðara með að fá vinnufólk.

Heimild: Íslenska Wikipedia, slóð: https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%9E%C3%BDska_%C3%B6ldin

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR