Talibanar: „Við unnum þeir töpuðu“

Talibanar í Afganistan líta á það sem tímaspursmál hvenær þeir komast aftur til valda. Fréttamenn BBC sem voru á ferð í landinu og fengu að heimsækja og tala við foringja talibana segja að þeir séu mjög sigurvissir eftir að tilkynnt var um brotthvarf sveita bandamanna frá Afganistan og þó aðallega Bandaríkjamanna. „Við unnum þeir töpuðu,“ sagði Haji Hekmat einn foringja talibana við fréttateymið þegar þeir ræddu við hann í einu hverfa borgarinnar Mazar-e-Sharif sem þeir ráða. Litlu neðar í götunni hafði stjórnarherinn bækistöðvar en hann hættir sér sjaldan út úr þeim. Talibanar segjast vera ríkisstjórn í biðstöðu. Í viðtalinu kom fram að þeir hafa innleitt sharia kennslu í skólum borga og hverfa sem þeir ráða yfir og tala sífellt um jihad. Hekmat sagði BBC jafnframt frá því að meðan konur hlýddu og gengju um í hijab og fylgdu Sharia mættu þær læra og þá væru engin vandamál. Þegar talibanar voru við völd í Afganistan þá var konum bannað að ganga í skóla og þeim refsað sem það gerðu. Konur voru grýttar til dauða fyrir minnstu yfirsjónir og þurftu að ganga um í búrkum.Komist talibanar aftur til valda segjast þeir staðráðnir í að ríkisstjórn þeirra muni fara í einu og öllu eftir íslömskum gildum. Það má því segja að innrás bandamanna hafi engu áorkað í landinu og þegar þeir hverfi á braut verði allt eins og það var áður því allir virðast reikna með því að talibanar muni ná öllum völdum til sín aftur áður en langt um líður. 

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR