Sóttvarnayfirvöld breyta orðalagi: Nú verða Íslendingar búsettir erlendis líka að fara í sóttkví

Svo virðist sem frétt skinna.is um þá þversögn að Íslendingar erlendis þurfi ekki að fara í sóttkví, en Íslendingar búsettir hér á landi þurfi þess þegar þeir koma til Íslands frá útlöndum, hafi vakið mikla athygli .

Og athygli sóttvarnayfirvalda líka.

Íslendingur búsettur erlendis vakti athygli ritstjórnar skinna.is á því að nú væri orðalag um sóttkví, sem sóttvarnayfirvöld gáfu út í gær, breytt. Nú þurfa Íslendingar búsettir erlendis líka að fara í sóttkví við komuna til landsins líkt og Íslendingar búsettir á Íslandi. Ritsjórn skinna.is getur sagt frá því að í skilaboðum Íslendingsins fylgdu nokkur vel valin orð til skinna.is fyrir að hafa vakið athygli á málinu.

Bætt hefur verið við tilkynninguna frá sóttvarnayfirvöldum orðalaginu: „Þetta gildir einnig um Íslendinga sem eru búsettir erlendis og eru að koma til landsins.“ Áður var bara talað um Íslendinga búsetta á Íslandi og aðra með búsetu hér.

Ekki í samræmi við við EES?

Í því samhengi má nú spyrja hvort þær aðgerðir að einungis Íslendingar, en ekki ferðamenn frá öðrum löndum þurfi að fara í sóttkví, standist EES samninginn? Er í því sambandi vísað til þess að íslensk yfirvöld telja sig hafa heimildir og álit lögfræðinga fyrir því að ekki megi rukka ferðamenn sérstaklega fyrir umhverfispassa umfram Íslendinga því það sé mismunun samkvæmt EES. Því má spyrja hvort gildi það sama í þessu máli, sömu rök, og að hér sé á ferðinni mismunun gagnvart Íslendingum? Ritstjórn skinna.is hefur áður gagnrýnt og dregið í efa skynsemisrökin í því að erlendir ferðamenn séu minni smitberar en aðrir. Nýjar fréttir af smitum frá sóttvarnaryfirvöldum gefa til kynna að sú gagnrýni eigi rétt á sér því svo virðist að ekki sé ljóst eða hægt að rekja hvaðan ákveðin smit hér á landi hafa komið. Einnig má minna á nýlegt dauðfall ferðamanns hér á landi. Það dauðsfall er rakið til kórónaveirunnar og gerði það að verkum að heilbrigðisstofnun á landsbyggðinni og stór hluti heilbrigðisstarfsmanna þeirrar stofnunar var sett í sóttkví.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR