Netverslun áfengis leyfð á Íslandi?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kemur með óvænt útspil vegna samkomubannsins en hún leggur til íslensk netverslun með áfengi verði leyfð. Ráðherra áformar einmitt að heimila slíka netverslun og hafa áform þess efnis verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Umsagnarferli málsins er lokið og eins og búast mátti við, voru skiptar skoðanir á slíkri leyfisveitingu. Venjuleg harmkvæli um að slíkt leiði til þess að Íslendingar kunni sér ekki fótum forráð og fari á allsherjar fyllerí ,,med det samme.“  Slík rök heyrðum við gagnvart bjórnum og siðapostullarnar voru svo siðuðir, að þeir voru kaþólskari en sjálfur páfinn. Rökin voru þau sömu, að almenn áfengisdrykkja ykist.

En siðapostullarnir gleymdu þeirri staðreynd, að ef ekkert aðgengi er að bjór, þá drekka menn annað eða snúa sér að eiturlyfum. Raunin var sú, allan tímann sem bjórinn var bannaður, að drykkjuskapur Íslendingar var með ólíkindum og unglingadrykkja í miðbæ Reykjavíkur til skammar. Menn drukku frá sér vit og rænu með brennivínsdrykkju.  Annar bragur komst á þegar Íslendingar snéru sér að léttvíns- og bjórdrykkju og drykkjumenningin batnaði til muna.

En hver eru rökin með leyfisveitingunni? Í greinargerð frumvarpsins segir að það eigi að jafna stöðu erlendrar og innlendrar verslunar og heimila innlendum áfengsiframleiðendum smásölu. „Ráðgert er að í frumvarpinu verði heimilað að starfrækja innlenda vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Jafnframt segir að frumvarpinu er ætlað að mæta sívaxandi kröfum neytenda um aukið valfrelsi. Þá er nauðsynlegt að jafna stöðu innlendrar verslunar við þá erlendu, en neytendum er, eins og fyrr segir, nú þegar heimilt að flytja inn áfengi til landsins til einkanota heim að dyrum, t.d. í gegnum erlendar vefverslanir með áfengi. Með skírskotun til jafnræðis fæst ekki staðist að mismuna innlendri verslun með þessum hætti. Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að mæta kröfum minni áfengisframleiðanda, sérstaklega á landsbyggðinni, um að heimilt verði, í tilteknum tilvikum, að selja áfengi í smásölu til neytenda. Felur það í sér að áfengisframleiðanda verði heimilt að selja á framleiðslustaðnum eigin framleiðslu í neytendaumbúðum, til neyslu annars staðar.“

Allt eru þetta góð og gild rök.  Hvers vegna eiga íslenskir áfengisframleiðendur að sitja við óæðri endann á borðinu, þegar kemur að samkeppnisstöðu? Þessari spurningu hafa andstæðingarnir ekki svarað. Við búum í markaðshagkerfi og framboð og eftirspurn eiga að mætast á samkeppnisgrundvelli.

Alltaf er vísað í lýðheilsu þegar talað er gegn áfengi og áfengisdrykkju; en ef þeir eru svona áhyggjufullir um hana, þá ættu þeir að reyna að banna áfengi. Það var reynt á Íslandi og Bandaríkjunum á fyrri hluta 20. aldar með skelfilegum afleiðingum, skipulögð glæpastarfsemi varð til í Bandaríkjunum og menn brugguðu á Íslandi. Í dag myndi menn snúa sér að hættulegum eiturlyfjum sem sannarlega væri lýðheilsumál sem væri alvarlegt.

Þegar þú getur pantað á netinu áfengi erlendis frá, um hálfan hnöttinn, og fengið það heim á innan við 2 dögum, en íslensk brugghús mega ekki selja bjór í næsta hús og afhenda á nokkrum mínútum, þá er samkeppnin óeðlileg.

Eigum við ekki að styðja við íslenska framleiðslu sem er heimsgæðaflokki? Sem íslenskt áfengi er óneitanlega, vegna hreinleika íslenskt vatns og framleiðsluhætti.  Styðjum íslenska matvæla- og drykkjuvöruframleiðslu, allt þetta skapar til saman fæðuöryggi sem nær ekki bara til matvæla, heldur drykkjuvara.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR