Hrafnista, dvalarheimili fyrir aldraða í Reykjavík, hefur sent ættingjum og aðstandendum fólks sem dvelur á heimilinu áminningu vegna þess að kórónaveiran er komin til landsins.
Aðstandendur eru minntir á að aldraðir eru sérstaklega í hættu vegna veirunnar og veikjast alvarlega af kórónaveirunni.
Þeir sem eru með kvefeinkenni, flensulík einkenni eða hafa ferðast nýlega til skilgreindra áhættusvæða eiga ekki að koma í heimsóknir til ættingja á Hrafnistuheimilunum.
Í tilkynning Hrafnistuheimilinna segir meðal annars:
Mikilvægt er að þeir sem eru frískir, hafa ekki verið á skilgreindum áhættusvæðum og hafa því ekki ástæðu til að ætla að þeir hafi smitasta af veirunni hafi eftirfarandi í huga:
- Handþvottur er mikilvægasta ráðið til að forðast smit og einnig er mikilvægt að nota handspritt. Hafið þetta alltaf í huga þegar komið er inn á heimilin.
- Forðist alla líkamlega snertingu eins og hægt er svo sem handabönd, faðmlög og kossa við íbúa.
- Forðist að koma við snertifleti í almennum rýmum svo sem handriði og hurðarhúna.
Leita þarf allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar heimilanna veikist af Kórónaveirunni. Það er ljóst að það getur reynst íbúa mjög erfitt að fá ekki heimsóknir frá ættingjum sínum og á sama hátt getur það reynst ættingjum íbúans mjög erfitt að heimsækja hann ekki. Það er samt nauðsynlegt að grípa til þessarra ráðstafana til að koma í veg fyrir að íbúi veikist af veirunni og eins geta smit borist frá ættingjum eins íbúa til annars íbúa.
Heilsa og velferð íbúanna þarf alltaf að vera í forgangi.
Við bendum ykkur á að kynna ykkur leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins landlaeknir.is því staða mála og leiðbeiningar þeim tengdar geta breyst dag frá degi.
Ef þið hafið einhverjar spurningar getið þið sent tölvupóst á Bjarney Sigurðardóttur sýkingavarnarstjóra Hrafnistu bjarney.sigurdardottir@hrafnista.is