Kennarasamband Íslands gagnrýnir harðlega samskiptaleysi Sambands íslenskra sveitarfélaga við stéttarfélagið – Vilja vita af hverju grunn- og leikskólum er ekki líka lokað?

Forysta Kennarasambands Íslands (KÍ) er ekki ánægð með viðbrögð Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna samkomubannsins sem ríkisstjórnin lýsti yfir frá og með mánudegi. 

Í tilkynningu frá forystu kennara til félagsmanna í dag kemur fram að félagið hafi kallað eftir frekari upplýsingum frá sóttvarnalækni um það hvers vegna lagt er til að grunn- og leikskólum sé haldið opnum en framhaldsskólum og háskólum lokað og hvaða skilyrðum það er háð.

Í skilaboðum KÍ til kennara er tekið fram að KÍ hafi harðlega gagnrýnt Samband íslenskra sveitarfélaga vegna samskiptaleysis þeirra við stéttarfélag kennara og skólastjórnenda á fundi í dag. 

Tölvupóstur KÍ til kennara er hér birtur í heild: 

„Ágætu félagsmenn!

Forysta Kennarasambands Íslands var að koma af fundi með ráðherra mennta- og menningarmála í kjölfar ákvörðunar um samkomubann í morgun.

Rétt í þessu voru einnig birtar tvær auglýsingar frá heilbrigðisráðherra: Auglýsing um samkomubann og auglýsing um skólahald í landinu.

Auglýsingin um skólahald er afar óljós og nákvæmar upplýsingar um hvernig áætlað er að halda úti skólastarfi í grunnskólum, leikskólum og tónlistarskólum eru ekki enn fyrirliggjandi.

Kallað var á fundinum eftir frekari upplýsingum frá sóttvarnarlækni um það hvers vegna lagt er til að grunn- og leikskólum sé haldið opnum en framhaldsskólum og háskólum lokað – og hvaða skilyrðum það er háð. Jafnframt mun KÍ fara fram á greinargóðar upplýsingar um það með hvaða hætti sveitarfélög ætla að tryggja velferð og öryggi nemenda og starfsfólks í leik- og grunnskólum.

KÍ gagnrýndi á fundinum harðlega samskiptaleysi Sambands íslenskra sveitarfélaga við stéttarfélag kennara og skólastjórnenda. Kennarasambandið hefur farið fram á fund með forystu sambandsins þar sem farið verður yfir málið.

Frekari upplýsinga er að vænta um leið og frekari skýringar liggja fyrir.“

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR