Fer Guðmundur Franklín í forsetann?

Sterkur orðrómur er um að Guðmundur Franklín Jónsson muni gefa kost á sér til forseta í næstu forsetakosningum. Guðmundur hefur verið harður gagnrýnandi núverandi forseta og kallað hann „ESB forsetann.“ Einnig Guðmundur hefur ekki skafið utan af áliti sínu á RÚV sem hann hefur sakað um að hafa, með einhliða áróðri, bæði skapað og komið Guðna Th. í forsetaembættið og að RÚV sé stjórnað af sósíalistum og ESB sinnum.

Í nýlegri færslu á fésbókinni lætur Guðmundur forsetann og RÚV hafa það óþvegið.

„Það er hlægilegt að sjá RÚV og Friðjón, æðsta sölumann forsetans og hægri hönd Bjarna Ben, ætla sér nú að reyna að markaðssetja ESB-forsetann hann Guðna Th. sem þjóðernissinna. Það er fátt sem kom jafn glöggt fram í þessu nýársávarpi og um hvað kosningabaráttan mun snúast og hvernig RÚV ætlar að selja okkur forsetann.

Við skulum ekki gleyma því að þessi sami forseti bæði skrifaði undir þriðja orkupakkann sem og að beita sér ekki gegn honum. Einnig hefur sitjandi forseti talað gegn þorskastríðinu, reynt að gera lítið úr hetjudáð þeirra Íslendinga sem börðust fyrir landhelginni og fiskinum okkar. Við eigum þessum hugdjörfu forfeðrum okkar mikið að þakka og án drengilegrar baráttu þeirra hefði verið lítið um lífsviðurværi á erfiðum tímum.

Við megum heldur ekki gleyma því að fyrrum formaður ESB flokksins, Viðreisnar, sagði: “Nú sátum við þarna við end­ann, Guðni Th. og ég, rúm­lega átta mán­uðum eftir að ég spjall­aði við hann og hvatti til for­seta­fram­boðs með til­heyr­andi plott­i.” og viðurkenndi hann með því hvernig hann hefði plottað að koma Guðna Th. í framboð. Það sér hver heilvita maður að formaður ESB-flokks styður ekki forsetaefni sem er á móti ESB, enda er Guðni ESB sinni.

Að lokum má það alls ekki falla í gleymsku að Guðni Th. studdi Icesave. Hefði hann verið í brúnni á þessum tíma eru allar líkur á því að þjóðin hefði ekki fengið að kjósa og því orðið að kyngja fyrsta og versta samningnum, þ.e. Svavarssamningnum en Guðni sagði sjálfur í Grapevine þann 19. júní 2009: „Það getur verið að okkur líki Icesave-samningurinn illa, en hinn kosturinn er miklu verri og kannski er þetta það bezta sem við eða einhver annar gæti fengið.“

Kæru vinir. Ekki láta glepjast. Guðni er ekki þjóðernissinni frekar en hæna er farfugl. Tökum öllu sem RÚV réttir að okkur með varúð því oftast nær liggur eitthvað að baki sem við sjáum ekki strax,“segir Guðmundur Franklín í nýjustu færsu sinni á fésbókinni.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR