Enn á ný sér Útlendingastofnun ástæðu til að leiðrétta málflutning NO BORDERS og fleiri – Verður ekki vísað frá Portúgal til Írans

Ekki stendur til að vísa íranskri fjölskyldu frá Portúgal til Írans samkvæmt  fréttatilkynningu frá Útlendingastofnun. Þar er farið yfir verkferla þegar börn eiga í hlut og tekið sérstaklega fram að sérþjálfað starfsfólk hafi það með höndum. 

Fjölskyldan kom fyrst til Portúgals og höfðu þarlend yfirvöld samþykkt að veita þeim hæli meðan umsóknin er skoðuð og tekið er fram að í Portúgal standi þeim til boða öll nauðsynleg þjónusta. Þetta virðist vera þvert á málflutning samtakana NO BORDERS og annarra sem halda því fram að fjölskyldan verði flutt rakleiðis frá Portúgal og til Írans.

Skinna.is hefur sent fyrirspurn á Útlendingastofnun með spurningum um hvernig stofnunin eða yfirvöld geti sannreynt að drengurinn sé transbarns eins og haldið hefur verið fram af fjölskyldu drengsins og NO BORDERS samtökunum. Eins og komið hefur fram í fréttum þá var ekkert gefið upp um það í Portúgal að um transdreng væri að ræða. Þegar fjölskyldan kemur til Íslands er margt sem bendir til þess að þeim hafi verið ráðlagt að spinna þessa sögu upp samkvæmt ábendingu sem skinna.is fékk. Yfirvöld séu að skoða málið.

Engin svör hafa borist frá Útlendingastofnun varðandi fyrirspurn um þetta frá skinna.is og því er ekki hægt að staðfesta þessa ábendingu.

Fréttatilkynning Útlendingastofnunnar er birt í heild sinni hér fyrir neðan.

Útlendingastofnun vill koma því á framfæri að við málsmeðferð umsókna barna um alþjóðlega vernd eru tekin viðtöl við öll börn sem hafa til þess aldur og þroska að fengnu samþykki foreldra.

Fram kom í fjölmiðlum um helgina að til stæði að fylgja íranskri fjölskyldu, sem hefur dvalið á Íslandi frá því í mars á liðnu ári, til Portúgal en framkvæmdinni var frestað af heilbrigðisástæðum.

Fjölskyldan kom hingað til lands og sótti um alþjóðlega vernd eftir stutta dvöl í Portúgal. Portúgölsk yfirvöld höfðu veitt fjölskyldunni vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið og var umsókn hennar um vernd því afgreidd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar með ákvörðun um að þeim skyldi fylgt aftur til Portúgal. Þar í landi stendur fjölskyldunni til boða nauðsynleg þjónusta og málsmeðferðarúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Viðtöl við börn

Við málsmeðferð umsókna barna um alþjóðlega vernd tekur starfsfólk Útlendingastofnunar viðtöl við öll börn sem hafa til þess aldur og þroska að fengnu samþykki foreldra. Starfsfólk stofnunarinnar, sem hefur hlotið til þess sérstaka þjálfun, hefur tekið viðtöl við börn allt niður í fimm ára aldur. Þannig er börnum tryggður réttur til að tjá sig sjálf um aðstæður sínar, heilsufar, líðan og fleira. Tillit er tekið til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Foreldrar geta afþakkað boð stofnunarinnar um að viðtal sé tekið við barn og er framburður foreldranna um aðstæður barnsins lagður til grundvallar ákvörðunum stofnunarinnar í slíkum tilvikum.

Þessu verklagi var fylgt við afgreiðslu umsóknar fjölskyldunnar frá Íran.

Bakgrunnur – Dyflinnarsamstarfið

Sem þátttakandi í Schengen-samstarfinu hefur Ísland innleitt svokallaða Dyflinnarreglugerð en í henni eru sett fram viðmið sem ákvarða hvaða ríki samstarfsins ber ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd. Eitt þessara viðmiða kveður á um að það ríki sem veitir einstaklingi áritun inn á Schengen-svæðið skuli bera ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd ef viðkomandi nýtir áritunina til að sækja um vernd í einhverju ríki samstarfsins.Rétt er að taka fram að þegar umsókn um alþjóðlega vernd er afgreidd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar er ekki tekin afstaða til þess hvort viðkomandi eigi rétt á alþjóðlegri vernd heldur er ákveðið að viðkomandi skuli fylgt til þess ríkis sem ber ábyrgð á meðferð umsóknarinnar. Það er hlutverk ríkisins sem ber ábyrgð á meðferð umsóknarinnar að skera úr um það hvort viðkomandi eigi rétt á alþjóðlegri vernd.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR