Baráttan um landið – Jarðalög og eignarhald jarða

Nú í sumar urðu breytingar á lögum um jarðakaup. Mikið var gert úr breytingunum fyrir lagasetninguna, en þegar til kom, varð lítið úr málinu. Örlitlar tæknilegar breytingar gerðar og skorður settar við jarðakaup sem jafnast á við stæð landnáms Ingólfs Arnarssonar. Þannig getur fast­eigna­kaupandi ekki eignast land ef hann eða tengdir aðilar eiga fyrir land sem er saman­lagt 10 þúsund hektarar að stærð nema með sér­stakri undan­þágu frá ráð­herra. En hvað eru 10 þúsund hektarar stórt land í ferkílómetrum? 100 ferkílómetrar sem nokkuð víðfemt land. Athyglisvert er að jarðakaup á Íslandi verða áfram opin öllum sem búa á EES-svæðinu.

,,Það er í­gildi tíu Skál­holts­jarða, eða 20 til 30 á­gætra land­búnaðar­jarða í Eyja­firði eða á Suður­landi. Nú er hins vegar vitað að menn á borð við auð­manninn Ratclif­fe eiga þegar miklu meira land en þessu nemur. Yrði hann stöðvaður með þessum lögum? Það væri hægt enda skal það „að jafnaði“ gert, eins og segir í laga­textanum,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi Alþingismaður, en hann hefur verið ötull talsmaður og baráttumaður fyrir verndun íslenskt lands fyrir ásælni erlendra auðkýfinga.  Hann skrifaði ágæta grein í Fréttablaðinu sem ber heitið ,,Auððmenn eiga ekki að stýra landakaupa umræðunni,“ og hér er vitnað í.

Önnur ,,veigamikil breyting“ er að nú að gera gangskör að skráningu landareigna en því aðeins er slíkt skylt að menn eigi fyrir fimm lögbýli eða fleiri, eða samanlagt 1.500 hektara lands.

Hvers vegna skiptir eignarhald á landi svo miklu máli í dag, þegar innan við 5% þjóðarinnar vinnur við landbúnað? Áður fyrr og í raun frá upphafi landnáms, skipti eignarhald á landi öllu máli um samfélagslega stöðu í þjóðfélaginu og var uppspretta auðæfa eða fátækrardóms. Í dag skiptir öllu máli að komast í auðlindirnar, sem oftast eru neðanjarðar, í formi heits eða kalts vatns, eða áa, sem geta framleitt rafmagn eða gefið af sér laxveiði. Jarðgufan, heita vatnið og fallvötnin/árnar, eru helstu auðlindir Íslendinga á landi en fiskimiðin í efnahagslögsögunni.

Baráttan um fiskimiðin virðist töpuð, kvótakerfið virðist tryggja samanþjöppun aðgangs að fiskimiðunum í fárra hendur og að lénsveldi hafi komist á hér, sbr. þegar börn sægreifanna erfðu eignarhlut foreldra sinna í sjávarútvegsfyrirtækjunum nú í sumar og þar með að kvótanum.

En baráttan um landið sjálf er hafið. Eignarhald á landi var uppspretta auðæfa í gegnum aldir eins og áður sagði. Eignarverð á landi féll gífurlega á 20. öld, þegar meiri hluti landsmanna var fluttur á mölina. Auðkýfingar einbeittu sér að sjávarútveginum og höfðu gert síðan á seinni hluta 19. aldar. Þeir ,,eignuðust“ heilu þorpin við sjávarsíðuna og voru smákóngar.  Nú er fyrirséð að sjávarútvegurinn er kominn að þolmörkum hvað varðar veiðar. Reynt er að útvíkka hann með fiskeldi en jafnvel þar eru takmörk.

Orkan er mesta verðmætið í dag í heiminum. Hún er í mismunandi formi, hér á Íslandi er hún í formi gufu eða heits vatns eða rennandi. Um þetta snýst eignarhald á landi.  Auðkýfingar keppast við að kaupa jarðir sem gefa af sér smávirkjanir. Þær eru nefnilega vannýt auðlind og til samans, geta gefið af sér mikinn arð.  Það er því ekki bara auðmaðurinn Ratcliffe sem er á höttunum eftir jarðir, heldir íslenskir ríkismenn.

En hvað segir sagan okkur? Eftir  siðbreytingu 1550, skiptist eignarhald á landi í þrjá meginhluta. Kirkjuvaldið, konungsvaldið og fáeinar valdaættir átt mest megnið af landinu.

Lágmarksstærð búa var þrjú kúgildi samkvæmt Píningsdómi frá árinu 1490. Ef einstaklingur réð ekki yfir slíkri eign þá varð hann að gerast vinnuhjú. Þessi lög voru enn þá í gildi á 18. öld og giltu í reynd áfram langt fram á 19. öld.

Algengast var að fólk væri eingöngu vinnuhjú á unga aldri en stofnaði síðan bú ef það fékk leigt jarðnæði og gengi þá í hjónaband. Hins vegar var það hlutskipti margra, sérstaklega kvenna, að vera í vinnumennsku ævilangt.

Flestir íslenskir bændur voru leiguliðar en þó var ekki bændaánauð á Íslandi og ekki hægt að skylda bændur til að búa áfram á leigujörð sinni lengur en eitt ár í senn. Sama gilti um vistarbandið, enginn var skyldugur að vera hjá sama bónda lengur en eitt ár í senn.

Ísland er sérstakt vegna þess hve stór hluti þjóðarinnar bjó í ófrjálsu einlífi vinnumennskunnar eða að jafnaði um 25% landsmanna alla 19. öldina sem var hæsta hlutfall í Evrópu. Leiguliðar eru enn til, en þeir leiga flestir jarðir af ríkinu en eftir sem áður eiga þeir ekki landið.

Í sögubókinni ,,Íslenskur söguatlas“ kemur fram að eignarhald á jörðum hér á landi var í talverðum föstum skorðum frá 1550-1785. Kirkjan átti 30%, konungur 20% og 50% voru í einkaeign. Jarðir í einkaeign voru framan af á hendi fárra, auðugra landeigenda. Meiri hluti landeigenda var af ákveðnum ættum og héldust eignirnar yfirleitt í ættunum því að algengast var að þær tengdust innbyrðis með mægðum. Sjálfeignarbændur voru fáir, um 4-5% allra bænda (Íslenskur söguatlas, 2. bindi. Frá 18. öld til fullveldis, 20).

Iðnbyltingin á Íslandi 1880-1920 breytti öllu og fór hún að mestu fram í sjávarútvegi en að litlu leyti í landbúnaði (í úrvinnslu afurða).  Landbúnaðarsamfélagið var komið í þrot þegar um 1860 og fólksflutningar hófust til Vesturheims og þorpsmyndun í fullum gangi.

Eftir 1940 hófst fólksfækkun í sveitum sem stendur enn yfir. Jarðir stækkuðu, vélvæðing í sveitum var í fullum gangi og bændum fækkaði. Nýjar búgreinar urðu til, svo sem skógrækt, kornrækt, svínabúskapur, garðyrkja o.s.frv. En jarðeigendum fjölgaði ekki svo um munaði í samræmi við það eða íbúafjöldi yfir höfuð í strjábýlinu, vélvæðingin sá til þess. Flestir íslenskir bændur í dag eru sjálfseignabændur.

En nú eru tímamót eða svo virðist vera. Kapphlaupið um orkuna er hafið og er það í raun fyrir löngu.  Orkan knýr efnahagslíf Íslendinga. Spurningin er kannski nú, hvort Íslendingar eigi að vera ,,leiguliðar“ orkunnar í höndum íslenskra eða erlendra auðkýfinga? Verða örlögin þau að Íslendingar fái ekki bara sægreifa, heldur líka landgreifa?

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR