Á fullri ferð gegn spillingu: Á leið aftur í framboð?

Guðmundur Franklín Jónsson sem bauð sig fram gegn sitjandi forseta í síðustu forsetakosningum hefur verið mjög virkur á samfélagsmiðlum og talað gegn spillingu. Hann er ekki hættur að brýna núverandi forseta til að standa með þjóðinni og nú síðustu daga hefur hann hvatt fólk til að skrifa undir bænaskjal um að Guðni Th. Jóhannesson forseti beiti málskotsréttinum ákveði ríkisstjórnin að selja Íslandsbanka. 

Guðmundur hefur gagnrýnt söluna mjög ákveðið og kallað hana spillingu.

Margir telja að hugsanleg sala á ríkisbönkunum, Landsbanka og Íslandsbanka, verði til þess að þeir komist aftur í eigu ævintýramanna og krefjast þess að bankarnir verði í ríkiseigu og að minnsta kosti annar bankinn verði gerður að samfélagsbanka. 

Hægt er að skrifa undir á síðunni synjun.is en þar segir um áskorunina til forsetans: 

„..hr. Guðna Th. Jóhannesson að beita málskotsréttinum skv. 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og þar með synja staðfestingar hverjum þeim lögum samþykktum af Alþingi sem fela í sér sölu hlutabréfa ríkisins eða uppskipti í Landsvirkjun, Íslandsbanka eða Landsbankanum og vísa þannig lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hlutverk forseta er að vernda þjóðina fyrir ákvörðunum Alþingis sem vinna gegn velsæld hennar og sala þjóðhagslegra mikilvægra fyrirtækja er svo sannarlega eitt þeirra.“

Einnig segir:

„Við skorum á alla íslenska ríkisborgara

að skrifa undir þessa áskorun hér fyrir neðan. Víglínan er skýr, þeir sem vilja að þjóðin fari með forræði sinna eigin eigna og hins vegar þeir sem óska sér að lítil elítu-klíka handvalin af stjórnvöldum ráði för í íslensku efnahagslífi.

Í ljósi reynslunnar viljum við undirritaðir ekki selja þjóðhagslega mikilvæg ríkisfyrirtæki fyrr en lög við hringamyndun, fákeppni og einokun eru orðin að veruleika.“

Eftir því sem næst verður komið er Guðmundur Franklín ásamt fleirum með stjórnmálaflokk í burðarliðnum og heyrst hefur að hann og félagar hans í flokknum muni kynna stofnun hans strax á  næsta ári ásamt stefnumálum. 

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR