Eins og landslýðs er orðið kunnugt, er nú orðið ljóst að tveir frambjóðendur verða í forsetaframboði í júní mánuði 2020. Núverandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann ætlaði að gefa kost á sér aftur og staðfest það með söfnun tilsettra fjölda meðmælenda á undirskriftalistum. Fimm aðrir einstaklingar lýstu einnig yfir vilja sínum til að gegna forsetaembættinu og hafa fjórir af þeim hellst úr lestinni. Eftir er forsetaefnið Guðmundur Franklín Jónsson en hann hefur náð tilsettum fjölda meðmælenda.
Guðmundur Franklín gafst sér tíma til að ræða við blaðamann skinna.is en hann er nú í kosningaferð um landið og þegar þetta viðtal er tekið, er hann staddur á Suðurlandi.
Þakka þér fyrir að veita skinna.is viðtal um komandi forsetakosningar. Hér koma nokkrar spurningar sem okkur langar að spyrja þig.
Hvers vegna þú gefur kost á þér til þetta mikilvæga embætti?
Vegna þess að mér finnst mikilvægt að hafa forseta sem er öryggisventill með því að nýta málskotsréttinn og leitar allra mögulegra leiða við að starfa fyrir fólkið í landinu. Ég tel mig geta verið góðan forseta. Ég er hreinskilinn og vel að mér í hinum ýmsu málum sem gætu nýst þjóðinni eins og efnahagsmálum. Ég tel það kost að hafa forseta sem getur lagt fram hugmyndir fyrir þjóðina til viðbótar við að sinna sínum embættisverkum. Það þarf að nýta þetta embætti betur og sérstaklega núna þegar óánægja með störf þingsins virðist aukast með hverju kjörtímabilinu. Í rauninni finnst mér þessar kosningar bara snúast um eitt; vill þjóðin forseta sem nýtir málskotsréttinn eða vill hún það ekki?
Hverjar eru áherslur þínar sem forseti Íslands?
Að vera öryggisventill og nýta málskotsréttinn í umdeildum málum svo þjóðin eigi síðasta orðið. Að senda alla orkupakka í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að starfa fyrir þjóðina en ekki þingið. Að leita leiða við að bæta hag fólksins í landinu og eiga gott samtal við það svo ég viti betur hvað það er sem betur mætti fara. Umfram allt vil ég vera forseti fólksins en ekki forseti elítunnar.
Hvað hefur mátt fara betur í störfum núverandi forseta að þínu mati?
1. Ég er ósáttur með að hann tekur þá afstöðu að nýta ekki málskotsréttinn.
2. Ég er óánægður með að hann skuli hafa skrifað undir uppreist æru fyrir sakamenn í hræðilegum glæpum gagnvart börnum og unglingum án þess að óska eftir frekari upplýsingum.
3. Ég er ósáttur með það að hann skuli hafa staðfest dómara Landsréttar þegar hann virtist sjálfur í vafa um það mál.
4. Ég er ósáttur með að hann skuli hafa staðfest Raforkulög um þriðja orkupakkann þegar allar skoðanakannanir gáfu skýrt til kynna að mikill meirihluti þjóðarinnar væri andvígur og sýndu allt að 80% andstöðu.
5. Ég er óánægður með að hann skuli hafa staðfest þessa launahækkun fyrir þingmenn og ráðherra, það er engin hemja að hækka laun þessa fólks þegar við siglum inn í mikið niðurskurðarskeið.
6. Hann mætti vera duglegri að láta þjóðina vita hvaða embættisverkum hann sinnir í sínu starfi því tilfinningin er sú að við heyrum ekkert frá honum svo mánuðum skiptir en nú þegar kemur að kosningum þá skýtur hann upp kollinum alls staðar.
Hvert verður þitt fyrsta verk sem forseti Íslands?
Að lækka launin mín. Það er engin hemja að bilið á milli æðstu embættismanna og fólksins í landinu sé jafn mikið og það er. Ég vonast til að með þessari aðgerð munu aðrir æðstu embættismenn fylgja mínu fordæmi og lækka sín laun líka.
Hversu lengi hyggst þú sitja í embætti?
Eins lengi og þjóðin vill hafa mig í embætti. Ég lít svo á að ef ég verð forseti og stend mig vel þá vilji hún kjósa mig aftur en ef ekki þá tekur einhver annar við kyndlinum.
Ertu með einhver skilaboð til þjóðarinnar?
Mætið á kjörstað. Það hefur kostað blóð svita og tár um allan heim að almenningur hafi atkvæðisrétt og sums staðar hefur þessu markmiði ekki enn verið náð. Virðum lýðræðið og kjósum, því það er ein af grunnstoðunum í samfélaginu okkar.
Allar myndir sem hér má sjá eru birtar með góðfúslegu leyfi forsetaframboðs Guðmunds.