MS. Edda frá Hafnarfirði ferst við Grundarfjörð 1953

  Þann 16. nóvember 1953 fórst síldveiðiskipið Edda frá Hafnarfirði í Grundarfirði í ofsaviðri sem þá gekk yfir landið.  Af 17 manna áhöfn skipsins fórust 9 sjómenn og voru þeir nærri því allir Hafnfirðingar og flestir fjölskyldumenn.  Í þessari grein er sagt frá sjóslysinu og birt viðtal við einn þriggja eftirlifenda sem enn eru á lífi.

Stormsveipur skellur á skipið

Það var dálítill aðdragandi að þessum atburði, segir Ágúst Stefánsson vélstjóri sem þá var ungur maður, ekki nema 16 ára gamall piltur, en starfaði þá sem háseti um borð í Eddu.

 Við vorum áður búnir að fara með fullfermi úr Grundarfirði í annarri ferð og lögðum af stað til Hafnarfjarðar en við Öndverðanes lentum við í ofsaveðri og vorum heppnir að skipið skuli þá ekki hafa farið niður. Nótabátarnir voru þá í gálgunum og það hefur bjargað skipinu í það skipti.  Við urðum að moka síldinni út af dekkinu, um 40-50 tonn, til að rétta skipið sem þá lá á hliðinni en annar nótabáturinn kom í veg fyrir að það lægist algjörlega á hliðina og það að við náðum að draga nótina úr stjórnborðsbát yfir í bakborðsbát og þannig rétt skipið af.  Við náðum að lokum til Hafnarfjarðar heilir og höldum og sigldum síðan til Grundarfjarðar aftur eftir losun.  Eftir komuna þangað fórum við að kasta um daginn. Þá fór hann að hvessa, og við drifum okkur því að draga nótinni upp í nótabátanna, en náðum ekki að ganga frá henni. Við hengdum hana því upp á hekkið á skipinu og hnýttum bátanna aftan í skipið. Því næst leituðum við í var í Grundarfirði sunndagskvöldið þann 15. nóvember 1953. 

Við lögðumst við festar um nokkuð hundruð metra frá bryggjunni í Grafarnesi.  Þar á legunni voru þá mörg skip önnur, enda var mikið fárviðri og sjórok. Um hálf fimmleytið á mánudagsmorgun dró til tíðinda en þá skall æðisgengin vindhviða á skipið og stormsveipur þessi lagði skipið, sem þá var að mestu tómt, á hliðina, svo að bæði möstur fóru á kaf.   Svo virðist vera, er málið var skoðað seinna, sem legufæri hafi slitnað með þeim afleiðingum að skipið valt.

Þegar þetta gerðist, var ég staddur á dekki ásamt  tveimur öðrum mönnum, en skipstjórinn var þá á stjórnpalli.  Flestir voru gengnir undir þiljar, því að þá átti sér nýlega stað vaktaskipti.  Sumir voru komnir í kojur og lagstir til svefns en þeir sem það gátu, þustu upp er skipið fór á hliðina, og ekki leið nema örskammur tími þar til skipið valt yfir, svo að kjölurinn sneri upp.  Skipið valt þó ekki það hratt, þannig að ég gat skriðið eftir lunningunni og botninum og upp á kjölinn.  Við voru fimmtán sem komust á kjöl bátsins en tveir hafa orðið eftir undir þiljar.

Ill dvöl á kilinum

  Á meðan þessu öllu stóð geysaði stórviðri og það gekk á með slydduhríð og niðamyrkur var yfir öllu og veðurgnýrinn var óskaplegur.  Mennirnir á kilinum voru flestir illa klæddir og sumir aðeins á nærklæðunum, því að þeir höfðu verið í kojum sínum. Með skipinu fylgdu tveir nótabátar, vélknúnir, og voru þeir báðir festir við skut skipsins.  Annar af þeim var fljótlega skorinn frá, því að hann var fullur af sjó og óttaðist skipstjórinn að hann kynni að fara í skrúfuna, en allar vélar skipsins voru þá í gangi. Hann rak fljótt í burtu í myrkrið.  Hinn báturinn var enn bundinn við skut skipsins en hann var hálffullur af sjó. Fljótlega ákváðu flestir, sem voru á kilinum, að kasta sér til sunds og synda yfir í hinn hálffulla nótabát en ég var það heppinn að geta skriðið eftir kilinum og stökkva svo ofan í nótabátinn er hann rak að skipinu.  Fjórir voru eftir og töldu þeir að eins og á stóð, væri öruggara á vera á kilinum en það var nóg pláss fyrir alla um borð í bátinum.  Bjarni Hermundsson háseti mun hafa verið síðastur þeirra er upp úr skipinu komst og lagði hann til sunds á káetuhurðinni og synti að nótabátnum en hann var aðeins 18 ára gamall.  

Skipið sekkur

 Skipstjórinn sem var meðal þeirra sem komust upp í nótabátinn og hann gaf fyrirskipun um að skera á annan tveggja kaðla, sem voru úr bátnum í skipið, til þess að vera við öllu búinn ef skipið myndi skyndilega sökkva en hinn hefur þá ekki þolað álagið og slitnað.  Bátinn rak fljótt frá skipinu og hvarf í sortann og veðurhaminn.  Engar árar voru í bátnum og vélin í kaf í sjó, þannig að hún kom ekki að neinum notum.  Ég var það heppinn að vera í sjóstakki og gúmmístígvélum og það kom sér vel er við þurftum að ausa bátinn með þeim en ég var sá eini sem var í gúmmístígvélum.  Ég hafði ætlað að losa mig við þau er við vorum á kilinum vegna þess hve þung þau voru og spurði einn félaga minna hvort ég ætti ekki að fara úr þeim, en hann sagði mér að vera áfram í þeim.  Það kom sér vel þarna og náðum við að þurrausa bátinn.  Ég og Ármann háseti náðum að losa trommu sem snurpuvírinn var geymdur  á og henda henni út til hefta rekið á bátnum.  Við þetta rak hann mun hægar og kom í veg fyrir að við rækjum út fjörðinn en staðinn rak okkur þvert yfir hann, þótt eitthvað útrek var á okkur einnig. 

Er þá rak út af bátalegunni hrakti þá skammt frá tveim skipum.   Við hrópuðum eins og við gátum en ekkert heyrðist í okkur fyrir veðurhamnum.  Við sáum til manna á dekki á skipunum en þessir menn heyrðu ekkert í neyðarópunum vegna veðurofsann. Er bátinn hrakti rétt fyrir framan stefni síðara skipsins, sem hafði ljós á ljóskastara sínum, fór hann í gegnum ljósgeislann.  Enginn í skipinu þessu varð þeirra heldur var.   Þeir ráku út fjörðinn, en þá var suðaustan átt, og rákum við norðanmegin fjarðarins og strönduðum á skeri sem var rétt utan ströndina.  Sker þessi heita Norðurbár og eru að norðaustanverðu við Grundarfjörð.

2 tíma dvöl á skeri

 Í um tvo tíma voru mennirnir á skerinu og reyndu að leita sér skjóls í bátnum.  Síðan fór að falla að og rak báturinn þá í land.  Báturinn var lítið brotinn, þó svo að mjög hafði brotið á honum.   Við voru þá ellefu eftir í bátnum en þegar í fjöruna var komið, höfðu tveir skipverjanna látist úr vosbúð og kulda í bátnum.  Skipstjórinn og einn hásetanna, Guðmundur Ólafsson, brutust til lands úr bátnum til að sækja hjálp.  Á meðan biðum við hjálpar.   Á leið til bæjar að Suðurbár, en þangað er 15 mínúta gangur, mættu þeir Tryggva Gunnarsson í Suðurbár og tveimur öðrum mönnum.  Komu þeir skipsbrotsmönnunum í bátnum til hjálpar.   Var þá misjafnt ástand á þeim, af sumum var mjög dregið en aðrir voru í betra ástandi.  Ingvar Ívarsson, frændi minn, var þá sárastur af okkur, meiddur á fótum.

Einn skipverjanna var þá deyjandi og lést hann er skipsbrotsmennirnir voru um það bil hálfnaðir að Suðurbár.   Þar var mönnum veitt öll sú hjúkrun sem hægt var að láta í té.  Læknirinn í Stykkishólmi,  Ólafur Jónsson, kom um kvöldið yfir í Grundarfjörð mönnunum til hjálpar og tók ferðin sex klukkustundir.  Þegar hann kom í Suðurbár, hafði hvíldarlaust verið gerðar lífgunartilraunir á skipverja þeim er lést á leið til bæjar, en árangurslaust.

Vestur í Grundarfirði hafði þá ekki rekið neitt af líkum þeirra sex er drukknuðu er skipið sökk.  Ekkert rekald hafði heldur fundist.  Skipverjarnir höfðu allir fengið á sig einhverjar skrámur og tveir lágu um tíma rúmliggjandi.

Eftirmáli slyssins

Þegar kunnugt varð um slysið, sló miklum óhug á bæjarbúa í Hafnarfirði og var þá öllum skemmtunum aflýst í Firðinum og sorgarblær var yfir bænum.  Þeirra var m.a. minnist í guðsþjónustum og á Alþingi Íslendinga. 

Nokkrum dögum eftir slysið fann eitt síldveiðiskip hvar Edda lá og héldu skipverjar í fyrstu það vera síldartorfa.   Þetta var um það bil úti í miðjum firði, um 300 m frá landi.  Þegar nótinni hafði verið kastað, festist hún og við nánari athugun kom í ljós, að olíubrak var á sjónum og dýptarmæli skipsins staðfesti gruninn, að þetta væri skipsflak. Björgunartilraunir voru gerðar til að ná skipinu upp af hafsbotni og tókust þær að lokum.   Skipið fór í klössun og gert haffært á ný.  Það var lengi síldveiðiskip eftir þetta og hét þá Sigurkarfi.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR