Valdsvið forseta Íslands

Kapp hefur hlaupið í kinnar andstæðinga mótframbjóðenda Guðna Th. Jóhannesson, sem eru Guðmundur Franklín Jónsson, og Axel Pétur Axelsson, en þeir láta hinn síðarnefnda frambjóðandann alveg eiga sig sem þeir virðast ekki óttast.   

Hverjir eru andstæðingar framboðs Guðmundar? Jú ef marka má viðbrögð í fjölmiðlum, þá er það aðilar innan Fréttablaðsins og Pressunnar, sem er undirdeild undir DV.

Miðað við ummæli Axels, þá virðist hann ekki búast við að framboð hans nái fram að ganga. Í viðtali við Fréttablaðið sagðist hann vera ,,…byrjaður að safna undirskriftum en hann er hins vegar sannfærður um að kosningarnar verða ógildar með öllu. „Vand­ræða­gemsinn sem ég er þá lýsi ég því yfir nú þegar að þessar kosningar eru með öllu ó­gildar og lýð­ræðið er fallið á hliðina. Það eru ákveðin tímamörk, ég hef ekki getað gert neitt, ferðast neitt því það er allt fast,“ segir Axel Pétur en kórónuveiran hefur hamlað för manna milli landa. „Þeir sem að vilja safna fyrir mig geta það ekki,“ segir Axel Pétur.“

Helsta gagnrýnin á Guðmund er hann sé að misskilja hlutverk forsetans. Hann geri það of valdamikið og of pólitískt. Allir hafa þá rómantísku ímynd að á Bessastöðum sitji friðarhöfðingi sem er sameiningartákn og gegni litlu hlutverki. En það er bara ekki rétt mynd.  Forsetinn hefur alltaf haft pólitísku hlutverki að gegna í stjórnun lýðveldisins. Stjórnarskráin beinlínis segir það.

En hvað segir sjálf stjórnarskráin um valdsvið forseta Íslands? Hún er margorð um hlutverk forsetans og fyrstu 30 greinar hennar fjalla beint og óbeint um valdsvið hans.

Í fyrstu grein sinni segir hún að ,,Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“ Strax í annarri grein kemur meira kjöt á beinið en þar segir: ,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“ Þarna segir beinlínis að forsetinn eigi hlutverki að gegna gagnvart löggjafar- og framkvæmdarvaldinu. 

En svo er það dómsvaldið.  Dómendur fara með dómsvaldið en jafnvel þar getur forsetinn haft áhrif, því hann getur náðað dæmt fólk sem er ekki lítil völd. Sjá hér: 29. gr., ,,Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.“

Svo fjalla næstu greinar um verkefnasvið forsetans og önnur hagnýt atriði. En í 11. gr. segir að  ,,Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.“ Þar með er hann afgreiddur sem hlutlaus áhorfandi á stjórnathöfnum. En svona er það ekki alveg einfalt, þótt í 13. gr. segir að ,,Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt“ og í 14. gr. segir:  ,,Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“ Því að í 15. gr. segir: ,,Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“

Þar með er hann komið með óbeint vald yfir framkvæmdarvaldinu, þ.e.a.s. skipan ráðherra og lausn þeirra. Ef forseti sem situr á Bessastöðum, er alfarið andsnúinn setu ríkisstjórnar, getur hann gert henni lífið leitt, sem hefur reyndar aldrei gerst. En svo var einnig um málskotsréttinn, sem allir héldu að væri dauður lagabókstafur.

Í 16. gr. stjórnarskráarinnar er veitt raunverulegt hlutverk, en það er seta í ríkisráði en þar segir: ,,Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.  Og  í annari undirgrein segir: ,,Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.“ Þarna getur forseti, ef hann er alfarið andvígur einhverju máli, sett stólinn fyrir dyrnar og sagt, ég set þetta í dóm þjóðarinnar en venjulega, í þau fáu skipti sem það hefur gerst, er það þegar ráðherra ,,sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta, segir í 18 gr. og hann neitar að skrifa undir, sbr. 19. gr.: ,,Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.“

Hérna þurfum við að tengjast 26. gr. en hún segir: ,,Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.“

26. greinin er hinn frægi málskotsréttur og hann er mikill ef hugsað er út í það, að einn maður getur stöðvað framkvæmdarvaldið (með löggjafarvaldið á bakvið sig) í einum vettvangi. Sá forseti, sem vill ekki einu sinni íhuga þennan rétt þjóðarinnar, með íhlutunarvald forsetans, er ekki að skilja hlutverk sitt til hlýtar.

Í 21. greininni segir:  ,,Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“ Þetta eru umtalsverð völd og má eftir vill rekja til uppruna stjórnarskráarinnar á 19. öld.  Þetta hefur hingað til verið dauður lagabókstafur en athyglisvert er að frambjóðandinn Guðmundur Franklín hefur lýst þegar yfir andstöðu við ,,afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi…“ og er andvígur orkupakka 4 og 5 sem myndi falla undir ,,afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi….“

Nóg um afskipti forseta í orði, ef ekki á borði, af framkvæmdarvaldinu. Lítum á löggjafarvaldið. Hann, en ekki t.d. þingforseti, stefnir formlega saman Alþingi, hann getur frestað fundi þess og kvatt þingið aftur til starfa.

Í 22. gr. segir: ,,[Forseti lýðveldisins stefnir saman Alþingi eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar. Forsetinn setur reglulegt Alþingi ár hvert.].

Hér er 23. gr. Forseti lýðveldisins getur frestað fundum Alþingis tiltekinn tíma, þó ekki lengur en tvær vikur og ekki nema einu sinni á ári. Alþingi getur þó veitt forseta samþykki til afbrigða frá þessum ákvæðum. Í síðari undirgrein 23. gr. segir: [Hafi Alþingi verið frestað getur forseti lýðveldisins eigi að síður kvatt Alþingi saman til funda ef nauðsyn ber til. Forseta er það og skylt ef ósk berst um það frá meiri hluta alþingismanna.]

Enn er klekkt á mikilvægu hlutverki forsetans í 24. grein: ,,Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, [áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið], 1) enda komi Alþingi saman eigi síðar en [tíu vikum] eftir, að það var rofið. [Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.]“

Þetta eru gífurleg völd ef menn hugsa út það. Forsetinn stjórnar í raun starfi og starfstíma þess, a.m.k. formlega séð.

25. greinin er stórmerkileg en þar segir: ,,Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.“ Hefur það einhvern tímann verið gert? Þetta lagasetningavald er ítrekað í 28. r. en þar segir: ,,Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög [er Alþingi er ekki að störfum]. 1) Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð [fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný]….hér næstu undirgreinum slepp en þar er þetta vald undirstrikað og útlistað.

Í síðustu grein stjórnarskráinnar, 30. gr., um valdsvið forseta Íslands segir: ,,Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“

Kristófer Jónasson skrifaði ágætis ritgerð við Háskólann á Akureyri um raunverulegt valdsvið forseta Íslands en hann einbeitir sér að 26. gr. Hann segir í lokaniðurstöðum sínum í ritgerðinni:

,,Þegar stjórnarskrá landsins er skoðuð kemur bersýnilega í ljós að forsetanum er ætlað umtalsvert hlutverk. Forsetinn hefur ekki neitunarvald eins og Danakonungur hafði fyrir stofnun lýðveldis 1944, en hefur þó sambærilegt vald með hinum svokallaða málskotsrétti, samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar en tilgreint er í texta hennar að forsetinn getur neitað að staðfesta lagafrumvörp sem samþykkt hafa verið á Alþingi með þeim afleiðingum að þau verða þá send í þjóðaratkvæðagreiðslu til að skera úr um frambúðar gildi frumvarpa sem í hlut eiga hverju sinni, sem þó öðlast laga gildi við synjun.

Málskotsrétturinn er tæki forsetans til þess að vernda þjóðina gagnvart ofríki Alþingis og ríkistjórnar. Ólafur Ragnar Grímsson varð fyrsti forsetinn frá stofnun embættisins til þess að nota málskotsrétt sinn en gögn og heimildir hafa þó sýnt að litlu hafi munað að Vigdís Finnbogadóttir hefði beitt því þegar að EES-samningurinn var til umfjöllunar snemma á tíunda áratug tuttugustu aldar.

Segja má að valdbeiting forseta Íslands hafi alfarið ráðist af þeirri persónu sem gegndi embættinu. Núverandi forseti hefur beitt sér í meira mæli en fyrirrennarar hans og jafnvel tekið hvað stærstu pólitísku ákvarðanir sem forseti hefur tekið þegar hann hefur við 3 tilefni beitt málskotsrétti sínum skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar skoðaðar hafa verið yfirlýsingar Vigdísar og Ólafs Ragnars, sem þau fluttu í ríkisráði þegar til álita kom að beita 26. gr. stjórnarskrárinnar, kemur fram að þau töldu þá bæði að allar götur frá lýðveldisstofnun hafi forseti Ísland haft málskotsréttinn.

En þegar rýnt er í orð þeirra kemur fram að þau töldu bæði að til þess að nota hann þyrfti forseti að hafa til þess nægilega góð rök hverju sinni. Í öll þau þrjú skipti sem forseti Íslands hefur beitt málskotsrétti sínum hefur verið mikill þrýstingur og vilji frá bæði alþingismönnum og kjósendum um að forseti synji lögunum staðfestingar sem rennir stoðum undir það að í öll þessi skipti hefur frumvarpið verið mjög umdeilt. Þess vegna verður að álykta að synjunarvald forsetans sé mikilvægt til þess að forsetinn sem þjóðkjörinn umboðsmaður þjóðarinnar geti verndað hana fyrir ofurveldi Alþingis.“

Er þetta mest allt dauður lagabókstafur eða raunveruleg völd sem forsetinn hefur í stjórnarskránni? Munum að stjórnarskráin inniheldur grunnlög sem öll önnur lagagerð byggir á en einnig reglugerðir sem byggðar eru á lögum. Ef þetta er allt saman lagamál sem hafur ekkert gildi, því eru þessar greinar í stjórnarskránni skrifaðar á þessa vegu? 

Margoft hefur verið reynt að breyta stjórnarskránni en lítið hefur áunnist í því efnum. Jafnvel hefur verið reynt að breyta henni í heild sinni sem væri þá umbylting og gæti leitt til að nýtt lýðveldi yrði til, líkt og hefur gerst í Frakklandi.

Núverandi stjórnarskrá er byggð á „Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands“ sem var í gildi frá 1918-44 en núverandi stjórnarskrá er svo kölluð lýðveldisstjórnarskrá. Hún ber auðljós merki um að eiga uppruna sinn að rekja til konungsríkis og ef til vill endurspeglar vald forsetans, valdið sem konungur Íslands hafði. Frá gildistöku stjórnarskrárinnar hefur henni verið breytt alls 8 sinnum en í grunninn er hún sú sama og aðallega hefur verið bætt við (mannréttindakaflinn) frekar en fellt út.

Heimildir:

  • Stjórnarráð Íslands: https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html
  • Kristófer Jónasson: ,,Er forseti Íslands aðeins þjóðhöfðingi og sameiningartákn þjóðarinnar eða í raun æðsti embættismaður þjóðarinnar og „öryggisventill“ gagnvart löggjafarvaldinu?“ Lokaverkefni til 180 eininga B.A.-prófs á hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri, 2011. Leiðbeinandi: Ágúst Þór Árnason.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR