Sögulegt friðarsamkomulag Ísraels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna

Á fimmtudag komust Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmin (SAF) að friðarsamkomulagi og bætist Sameinuðu arabísku furstadæmin við hóp aðeins tveggja arabískra land sem viðurkenna og eiga í stjórnmálasamskipti við Ísrael. Að vonum hafa stjórnvöld beggja ríkja og Bandaríkjanna gert mikið úr samkomulaginu og sagt það sögulegt. Þá segja leiðtogar ríkjanna að samkomulagið glæði vonir um að friðvænlegra verði í Mið-Austurlöndum. Samkomulagið mun fela í sér opnun sendiráða, viðskipti og skipti á tækni, beint flug og ferðaþjónustu og samvinnu um orku, öryggi og upplýsingaöflun.

Birt hefur verið viðtal við Magnús Þorkell Bernharðsson í RÚV, sem er prófessor í Mið-Austurlandafræðum, en hann er ekki sammála því. Í því segir hann orðrétt: „Mér finnst þetta hafa eiginlega enga þýðingu. Ísraelar eru ekki að skuldbinda sig að gera eitt eða neitt.“ Honum finnst tímasetningin líka einkennileg og vill tengja vilja Sameinuðu arabísku furstadæmanna til að viðhalda viðveru Bandaríkjanna í Persaflóa. Hann segir að friðarsamkomulagið hafi enga þýðingu fyrir friðarsamninga Ísraela og Palestínumanna. Þetta er túlkun hans á þessum atburðum.

Ef litið er blákalt á málið og hvað þessi ríki eru að gera, þá er þetta sögulegt í alla staði. Í fyrsta sinn ná Ísraelar opinberlega friðarsamninga við arabaríki sem er ekki nágranna ríki þeirra. Jórdanar og Egyptar þurftu af illri nauðsyn að semja við Ísraela, enda tapað stríðum við þá og þurftu á friðarsamkomulagi á að halda til að endurheimta landsvæði (Sínaí skagann) og koma á frið um landamæri Ísraels og Jórdaníu.

Friðarsáttmálinn milli Egyptalands og Ísraels var undirritaður 16 mánuðum eftir heimsókn Anwar Sadat, forseta Egyptalands, til Ísraels árið 1977 eftir ákafar samningaviðræður árið 1979. Helstu atriði sáttmálans voru gagnkvæm viðurkenning, stöðvun á stríðsástandi sem verið hafði síðan Araba-Ísraelsstríðsins 1948, eðlileg samskipti og algjörlega afturköllun Ísraels hers og óbreyttra borgara frá Sínaí-skaga sem Ísrael hafði hertekið í sex daga stríðinu 1967.

Sáttmálinn milli Ísraela og Jórdana 1994 gerði upp samskipti landanna tveggja, gerðu út um deilur um land og vatn og kveðið var á um víðtækt samstarf í ferðaþjónustu og verslun. Í því fólst loforð um að hvorki Jórdanía né Ísrael leyfðu yfirráðasvæði þess að verða sviðsetning fyrir hernaðarárásir þriðja lands.

Engin slík nauðsyn er á ferðinni hvað varðar samskipti Ísraels og SAF. Að því leytinu til, er þetta sögulegt. Alveg sama þótt samskiptin hafi verið mikil undir yfirborðnu, þá er þetta mikið hugrekki sem þarna er sýnt. Að semja við erkióvininn sjálfan, Ísraela, er skelfilegt í augum margra múslima, enda hefur ekki staðið á mótmælum og reiðisröddum ríkja eins og Tyrklands og Írans. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru komin í ónáð margra múslimaríkja.

Ísrael hefur átt í samskiptum við mörg arabísk ríki á bakvið tjöldin og það verður líka sögulegt ef þeim tekst að landa fleiri friðarsamningum, eins og Donald Trump gaf til kynna að væri í farveginum, þegar friðarsamkomulagið var kynnt opinberlega. Enn eitt ríki af 22 arabaríkjum hefur samið frið við Ísrael.

Tvær fjandsamlegar blokkir berjast um yfirráðin í Miðausturlöndum. Annars vegar Saudi-Arabía með stuðningsríki en hins vegar Íran með sín stuðningsríki. Svo er Tyrkland að reyna vera þriggja blokkin með litlum árangri. Það er greinilegt að Ísraelar eru að skipa sig í blokk Saudi-Arabíu en samskiptin við Tyrkland hafa verið stirð en afar fjandsamleg við Íran. Ekki er ólíklegt að Ísraelar nái friðarsamkomulagi við Saudi-Arabíu næst, sem virðist vera ótrúlegt á yfirborðinu, en mun líka færa miklu samskipti þessara ríkja upp á yfirborðið. Yrði það heldur ekki sögulegt?

Hvað varðar tímasetningu og vilja SAF til að binda viðveru Bandaríkin í Persaflóa, þá eru það veik rök. Bandaríkin verða þarna áfram, með þessu friðarsamkomulagi eða engu. Þeir eru beinlínis fastir þarna. Þeir eru þarna fyrst og fremst vegna samskipta sinna við Ísraela og Saudi-Araba, mikilvægustu bandamanna sinni í Miðausturlöndum. Ekki vegna olíunnar eins og löngum áður, enda sjálfbærir um sína olíuframleiðslu. En þeir eru líka þarna fyrir sjálfa sig. Þeir geta ekki leyft Íran að gerast kjarnorkuveldi. Það gæti þýddi kjarnorkuvopnastríð í framtíðinni.

Magnús segir að friðarsamkomulagið hafi enga þýðingu fyrir friðarsamninga Ísraela og Palestínumanna. Það á bara eftir að koma í ljós. Þótt leiðtogarnir þrír hafi minnst á frið milli Palestínumanna og Ísraela í þessu sambandi og það muni liðka fyrir friðarsamkomulagi, þá er það bara allt annað mál. Hins vegar fækkar þarna um eitt arabaríki sem styður málstað Palestínumanna og það eru slæmar fréttir fyrir þá. SAF voru löngum mikilvægt stuðningsríki við málstað Palestínumanna.

Robin Wright skrifar í The New Yorker að ríkishugmyndir og friður fyrir Palestínumenn eigi enn langa leið í höfn. Eftir áratuga spennu og átök um Miðausturlönd eru Palestínumenn ekki lengur knýjandi forgangsverkefni; málefni þeirra virðast einnig sífellt meir óviðkomandi stefnumörkun svæðisins. Bræður þeirra yfirgefa þá. Natan Sachs, forstöðumaður miðstöðvar stefnunnar í Miðausturlöndum við Brookings-stofnunina (Center for Middle East Policy at the Brookings Institution), sagði að „átökin eru ekki eins mikilvæg fyrir leiðtoga á svæðinu. Samningurinn er „sýnileg sýning á þreytu sumra arabískra leiðtoga í SAF og Sádi-Arabíu með forystu Palestínumanna og þeirra málstað. Þeir vilja ekki lengur halda aftur af því sem þeir líta á sem höfnunarstefna Palestínumanna.“

Í stóra samhenginu, það verður ekki friðvænlegra í Miðausturlöndum með friðarsamkomulaginu, svo lengi sem þau skiptast í 2-3 blokkir. Óhætt er að segja að þarna er kalt stríð í gangi og verður svo um ófyrirsjáanlega framtíð.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR