Sjúkrahús neita að taka við sjúklingum í smitbylgju í Kaliforníu: Nefnd lækna ákveður hverjir lifa og hverjir deyja

Ástandið í Kaliforníu í Bandaríkjun er svo slæmt að sjúkrahús hafa neyðst til að hætta að taka við sjúklingum sem streyma nú inn með sjúkrabílum.

Í fyrstu bylgju faraldursins var Kalifornía með mjög lága dánartíðni og er það talið hafa verið vegna harðra sóttvarna sem gripið var strax til í upphafi faraldursins.

Aðeins 2111 dauðsföll voru staðfest í ríkinu vegna kóvid-19 framan af faraldrinum. Á sama tíma var New York með 24.000 dauðsföll. Þannig var 20 sinnum líklegra að deyja úr kóvid-19 í New York heldur en í Kaliforníu.

Nú hefur þetta snúist við. Faraldurinn er í mikilli sókn í Kaliforníu, svo miklum að sjúkrahús hafa ekki við. Sjúkrahús hafa slegið öllum aðgerðum á frest í að minsta kosti tvær vikur.

Ríkisstjórinn Gavin Newsom segir að nú sé unnið að því að koma upp sjúkrarúmum í skólum, íþróttasölum og tjöldum. 

Mörg sjúkrahús eru uppiskroppa með súrefni til að gefa sjúklingum en súrefni getur skipt sköpum í meðferð sjúklinga sem eru með kóvid-19. Af þeim sökum geta mörg sjúkrahús nú ekki tekið við sjúklingum sem koma með sjúkrabílum.

Þurfa að ákveða hverjir lifa og hverjir deyja

Mörg sjúkrahús hafa því sett á stofn nefnd lækna og sérfræðinga innan sjúkrahússins sem þarf að taka þá erfiðu ákvörðun hverjir lifi og hverjir deyi.

Heilbrigðisyfirvöld óttast að þó að ástandið sé slæmt núna sé verra ástand handan við hornið. 

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR