Norðmenn ætla að taka upp aðferð Íslendinga: Kári segir þetta hafa verið borgaralega skyldu

Norska ríkisútvarpið fjallar í dag um þá aðferð Íslendinga að skima fullfrískar persónur fyrir kórónaveirunni og sagt er að nú ætli norsk yfirvöld að gera það sama. 

Fréttin byrjar á að lýsa hinum harða vetri sem getur komið á Íslandi, talað er um efnahagsstorminn sem hér varð með falli bankanna og eldgos og sagt er að Íslendingar séu vanir að standa í storminum og standa hann af sér. 

Rætt er við Kára Stefánsson í fréttinni.

„Hér ríkir faraldur sem er að eyðileggja efnahaginn okkar. Efnahagurinn er að hrynja vegna veirunnar. Fólk er sett í sóttkví. Og fólk er að deyja,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í samtali við NRK. 

Sagt er frá því hvernig Erfðagreining bauðs til að skima eins marga og mögulegt er til að kortleggja útbreiðslu veirunnar á landinu og þegar hann er spurður hvers vegna einkafyrirtæki hafi ráðist í þessar aðgerðir á eigin kostnað segir Kári að það hafi verið borgaraleg skylda fyrirtækisins að gera þetta. 

Íslendingum er hrósað fyrir þessar aðgerðir og greint frá því að ekkert land í heiminum hafi skimað jafn marga íbúa. 

Vissi ekki að hann var smitaður

Arnar Thor Ingólfsson segir við NRK að hann hafi ekki vitað að hann væri smitaður.

Rætt er við Arnar Thor Ingólfsson sem fór í skimun hjá Erfðagreiningu. Eftir að hafa svarað því neitandi hvort hann væri smitaður eða væri í sóttkví fékk hann að fara í próf. Það hafi komið honum algjörlega á óvart að í ljós kom í skimun að hann var smitaður af kórónaveirunni. 

Norski landlæknirinn segir aðferðir Íslendinga merkilegar

NRK hafði samband við sóttvarna yfirvöld í Noregi og bar fréttina undir þau. Þar var umfjölluninni komið áfram í kerfinu og þótti merkileg. Eftir samtöl í kerfinu segir NRK  að yfirvöld hafi ákveðið að taka upp sömu aðferðir og Íslendingar, það er að segja að skima alla.

Frétt NRK.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR