Mótmæla dauðsföllum í Svíþjóð: „Það er hlegið að okkur og hrækt á okkur“

Ungt fólk sem mótmælt hefur hvernig sænsk yfirvöld hafa tekið á kórónaveirufaraldrinum segir að það hafi mætt miklu hatri almennings. Fólkið hefur hist reglulega á torgi sem kallast Sergels torg í Stokkhólmi.

Þar hafa þau staðið með mótmælaspjöld, lagt niður blómakransa og kveikt á kertum til minningar um þá sem hafa látist af völdum veirunnar. Fólkið telur að vegna þess hvernig stjórnvöld hafi tekið á málinu hafi allt of mörg líf tapast og hefði mátt koma í veg fyrir það. Þau telja yfirvöld geri allt of lítið til að hefta útbreiðslu veirunnar og sýni jafnvel kæruleysi.

„Við viljum segja fólki sannleikann um það sem er að gerast hér í Sviþjóð. Aðgerðir stjórnvalda vernda ekki fólk. Þetta sem er að gerast er hræðilegt,“ segir Andreia Rodrigues í samtali við NRK. Hún er 26 ára og talsmaður hópsins sem kallar sig SaveSwedenCov19.

Fá blendin viðbrögð

Hópurinn hefur hist í hverri viku og viðbrögð vegfarenda eru misjöfn og flest neikvæð. Gerð hafa verið hróp að þeim. Fólk kallar „Áfram Svíþjóð“ (heia Sverige). Margir hlæja hæðnishlátri að þeim og enn aðrir hreinlega hrækja á þau vegna þess að þau eru með munnbindi. „Ég hef virkilega upplifað mikið hatur,“ segir Rodrigues.

Í mótmælunum hefur fólkið staðið í einnar mínútu þögn til að minnast þeirra sem hafa látist í veirufaraldrinum en þá leggja margir vegfarendur það á sig vera með læti á meðan.

Rodrigues segist reyna að forðast smit eins og hún getur og gengur því daglega með munnbindi. Vegna þess verður hún fyrir aðkasti.

Hún segir að svo virðist sem Svíar taki munnbindi sem móðgun og ógn. Þeir vilji ekki viðurkenna að landinu sé ógnað af veirufaraldrinum.

Krafa mótmælenda er að Svíþjóð taki upp strangari aðgerðir gegn útbreiðslu veirunnar eins og tildæmis að fólk sem komi til landsins fari í sóttkví.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR