Kórónasmit í sænskum skóla: Foreldrar ekki upplýstir og starfsfólk mátti ekki segja frá

Tveir starfsmenn grunnskóla í Stokkhólmi voru greindir með kórónasmit en foreldrar og nemendur voru ekki upplýstir um málið. Þar fyrir utan var starfsfólki skólans sem hafði vitneskju um smitin sagt að þaga yfir upplýsingunum. Dagblaðið Aftonbladet skýrði frá málinu í gær. Í skólanum eru um 700 nemendur. Í tölvupósti sem sendur var á starfsmenn skólanns var upplýst að tveir væru smitaðir af kórónaveirunni og grunur er um þriðja smitið. Tekið er fram í öðrum pósti sem sendur er út stuttu eftir að sá fyrsti var sendur út um málið frá skólastjórninni að starfsfólk skuli ekki tala um málið eða gefa aðrar upplýsingar um hvernig þeim smituðu líður.

Sumu starfsfólki skólanns var svo misboðið að það hafði samband við fjölmiðla og lýsti óánægju sinni með hvernig skólayfirvöld hefðu brugðis við. Þess er krafist að skólinn verði settur í sóttkví. Eftir að málið komst í fréttirnar hafa foreldrar margir hverjir brugðist reiðir við og gagnrýnt harkalega viðbrögð skólayfirvalda og þá þöggun sem ætlunin var að beita.

Svæðið sem skólinn er á hefur orðið illa úti í veirufaraldrinum.

Skólastjórinn heima með hita

Aftonbladet hafði samband við skólastjóra skólans og spurði hann út í hvort smit hefðu greinst í skólanum og hvers vegna þagga hefði átt málið niður. Skólastjórinn staðfesti að smit hefðu komið upp í skólanum og bar fyrir sig tilmæli og reglur frá borgarstjórninni í Stokkhólmi um að ekki mætti upplýsa um smit í skólum. Eftir að blaðið hafði talað við borgaryfirvöld í Stokkhólmi til að fá staðfestingu á að fyrirmæli hefðu verið gefin skólum um að upplýsa ekki um kórónusmit og fengið upplýsingar um að slík fyrirmæli hefu ekki verið gefin var aftur haft samband við skólastjórann sem þá viðurkenndi að hann hefði farið með rangt mál. Hann hélt sig þó við að ekki væri rétt að gefa foreldrum og nemendum upp hverjir það væru sem hefðu smitast í starfsliði skólanns en foreldrar vilja fá þær upplýsingar til að gera sér grein fyrir hvort börn þeirra hefðu umgengist þær manneskjur.

Það var upplýst í umfjöllun Aftonbladet að skólastjórinn væri lasinn heima, með hita, þegar blaðið náði tali af honum.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR