Íslenskir fjölmiðlar ekki á vaktinni?

Sá sögulegi atburður átti sér stað í gærdag, að þrjár þjóðir undirrituðu friðarsamning sín á milli í Hvíta húsinu, sem markar stóran áfanga í átt að friði í Miðausturlöndum.  Ísrael undirritaði friðarsamning við tvö ríki við Persaflóann, konungsríkið Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin.  Donald Trump sagði við athöfnina að fleiri ríki muni fylgja í kjölfarið.

Fulltrúar þessara ríkja þökkuðu Trump sérstaklega fyrir milligöngu og sáttamiðlun og að samningurinn hafi yfir höfuð komist á koppinn. En hvar voru íslenskir fjölmiðlar og hvað voru þeir sem stóðu vaktina fyrir erlendar fréttir? Ekki einn einasti fjölmiðill á Íslandi, utan Skinnu, fjallaði um þennan viðburð.  Allir fjölmiðlar í Bandaríkjunum, líka þeir sem eru óvinveittir ríkisstjórn Donalds Trumps, fjölluðu um þennan viðburð.  Einnig erlendar fréttaveitur eins og Reuters.

Um hvað fjölluðu íslenskir fjölmiðlar í gær og í dag? Kíkjum á fyrirsagnir fjölmiðlanna. Vísir: ,, Sagði að Covid myndi hverfa vegna „hjarðeðlis“, og hefur þessi ummæli eftir Trump.   Mbl.is: ,,Rannsaka Bolton vegna ummæla um Trump.“  RÚV: ,, Trump býst við bóluefni innan mánaðar“ og gerir lítið úr ummælum forsetans. Önnur ,,frétt“ í sama miðli: ,,Trump fullyrðir að Biden taki andlega örvandi lyf“ en erfitt er að skilja hvers vegna þess ummæli hans séu fréttnæmari en frétt um frið í Miðausturlöndum?  Þetta er frétt sem á erindi til Íslands, hreinlega vegna þess að friður í Miðausturlöndum varðar heimsfriðinn og þar með frið á Íslandi.  Er eitthvað að íslenskri fjölmiðlun?

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR