Hvar er krossinn á Bessastaðakirkju?

Vakið var athygli á í netheimum að það vantar krossinn á turni Bessastaðakirkju. Það vekur furðu, þar sem þetta er vígð kirkja í eigu forsætisembættisins. Gert var við Bessastaðakirkju og Bessastaði í heild í kringum aldarmótin eða um 1998. Hvenær krossinn hvarf af kirkjunni er ekki vitað og hvers vegna hann er ekki settur á aftur er athyglisverð spurning. Aðspurður hvort það stæði til að koma krossi aftur fyrir á kirkjunni, sagði Örnólfur forsetaritari í viðtali að það hefði ekki verið rætt og hann hefði ekki heyrt umræðu um slíkt síðastliðin 25 ár.

Á Wikipeda segir: ,,Bessastaðakirkja er kirkja á Álftanesi og stendur nokkra tugi metra frá forsetasetrinu á Bessastöðum. Bygging núverandi kirkju hófst 1773 en hún var fullbyggð 1823. Þá lauk turnsmíðinni og hafði kirkjan þá verið hálfa öld í byggingu. Hún var þó vígð árið 1796. Kirkjan var reist úr grjóti sem tekið var úr Gálgahrauni.”

Um sögu kirkjunnar er það að segja að Kristján konungur sjöundi ákvað að láta reisa steinkirkju á Bessastöðum og var leitað frjálsra samskota um allt land og einnig í Danmörku og Noregi, auk þess sem konungur lagði fram fé til kirkjusmíðinnar. Við byggingu kirkjunnar var hafður sá háttur á að hlaða múrveggi nýju kirkjunnar utan um gömlu kirkjuna og voru múrveggirnir hafðir mjög þykkir, rúmur metri, úr hlöðnu, kölkuðu grjóti. Hin nýja steinkirkja var vígð 1796 og stendur enn og er með elstu steinbyggingum landsins. Smíði turnsins lauk þó ekki fyrr en 1823. Breytingar voru gerðar á innviðum Bessastaðakirkju á árunum 1945 til 47 og steint gler var sett í gluggana árið 1956. Þá fór gagnger viðgerð fram á Bessastaðakirkju árið 1998 segir í grein Morgunblaðsins

Hér má sjá að myndarlegur kross var á turni kirkjunnar. Mynd: Þjóðminjasafn Íslands

Uppfært: Samkvæmt svörum frá þjóðkirkjunni við fyrirspurn Eyjunnar, laskaðist krossinn í óveðri og var ekki settur aftur upp eftir viðgerðir 1998. Talið er að hann geti mögulega verið uppi á lofti í kirkjunni, en gerð verður leit að honum í dag í kjölfar umræðunnar.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR