Grænlendingar eignast eigin hersveit – Íslendingar hunsa áfram eigin varnir

Grænland sem hefur einungis 58 þúsund íbúa og býr við heimastjórn, ætlar að axla ábyrgð á eigin vörnum, þótt svo að Danmörk sjái formlega áfram um varnir landsins. Í frétt DV um málið segir að ef allt gengur að óskum verður búið að koma grænlenskri hersveit á laggirnar á næsta ári, árið 2021. Í henni eiga að vera 120 sjálfboðaliðar eða með öðrum orðum, atvinnumenn sem eru ekki herkvaddir. Hersveitin á að styðja við starfsemi heimskautadeildar danska hersins þegar þörf krefur.

Reiknað er með að um 120 manns verði í hereiningunni að sögn John Boye Rasmussen, næstráðanda heimskautadeildar danska hersins. Meðlimirnir eiga að kunna grænlensku og búa yfir góðri staðarþekkingu.

Danska ríkisstjórnin sagði 2016 að Grænland ætti að vera með sitt eigið heimavarnarlið sem lyti stjórn heimskautadeildar danska hersins. Fyrirmyndin var sótt í svipaða hereiningar Kanadamanna.

Í frétt DV kemur fram að heimsskautadeild danska hersins beri ábyrgð á vörnum Grænlands og Færeyja auk þess að annast eftirlit á hafsvæðunum í kringum löndin og stýra leitar- og björgunarstörfum.

Ljóst er að Grænlendingar líta á þetta sem eitt skref til viðbótar í áttina að fullu sjálfstæði Grænlands. Færeyingar hafa líka viðrað áhuga sinn á að axla ábyrgð á eigin vörnum og tengja það einnig við eigin sjálfstæðisbaráttu.

Þá vakar spurningin hvers vegna fullvalda Ísland geti ekki axlað sína eigin ábyrgð í varnartengdum málum, í stað þess að treysta á stóra bróður í vestri – Bandaríkin? Komið sér upp undirfylki – herflokk (company) upp á 150- 250 manns, sem væru allir sjálfboðaliðar og stunduðu hermennsku í hlutastarfi, líkt og Þjóðvarðlið Bandaríkjanna gerir. Hvert einasta ríki Bandaríkjanna hefur þjóðvarðliði á að skipa og getur Bandaríkjaher kallað þetta lið til starfa þegar á þarf að halda á ófriðartímum.

Hvers vegna er Landhelgisgæslan, sem á að heita löggæslullið á sjó, er látin axla ábyrgð á varnarmálum Íslands, svo sem er flokkað sem loftrýmiseftirlit, loftvarnarkerfið og varnaræfingar?

Lítum á varnartengdum verkefnum Landhelgisgæslunnar. Helstu verkefni varnamálasviðs Landhelgisgæslunnar eru:

  1. Rekstur íslenska loftvarnakerfisins, þ.m.t. fjarskiptastöðva og ratsjárstöðva Atlantshafsbandalagsins hérlendis.
  2. Þátttaka í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins samkvæmt varnarmálalögum og á grundvelli þjóðréttarsamninga sem Ísland er aðili að.
  3. Rekstur, umsjón og hagnýting öryggissvæða og mannvirkja þar í eigu íslenska ríkisins og Atlantshafsbandalagsins í samræmi við notendaríkis- og gistiríkishlutverk Íslands.
  4. Undirbúningur og umsjón varnaræfinga sem haldnar eru hérlendis.     Úrvinnsla upplýsinga úr upplýsingakerfum Atlantshafsbandalagsins og undirstofnana þess.
  5. Þátttaka í starfi nefnda og undirstofnana Atlantshafsbandalagsins er varðar þau verkefni sem Landhelgisgæslu Íslands eru falin samkvæmt samningi þessum.
  6. Verkefni sem varða framkvæmd varnarsamningsins.
  7. Samstarf við önnur stjórnvöld, stofnanir eða opinber hlutafélög sem hafa með höndum verkefni sem tengjast varnarmálum.
  8. Samstarf við alþjóðastofnanir og framkvæmd alþjóðasamþykkta á sviði varnarmála er varðar þau verkefni sem Landhelgisgæslu Íslands eru falin.

Fyrsta skrefið væri sjálfsögðu að endurstofna Varnarmálastofnun sem stofnuð var 2008 en lögð niður í tíð vinstri stjórnar 2010, sem hefði þekkingu og sérfræðinga til að taka faglega á þessum málaflokki. Nú skiptist þetta á milli Landhelgisgæslunnar og Utanríkisráðuneytisins. Svo er að stofna herdeild. Það er einmitt eitt helsta hlutverk ríkis, að gæta öryggis inn á við og út á við. Nú höfum við lögreglu til að gæta að friði milli borgaranna en engar eigin varnir út á við.

En hvaða hættur steðja að íslenska ríkinu í dag. Samkvæmt áhættumatsskýrslu frá 2009 er hættum er skipt í þrjá flokka og í efsta flokki eru hættur sem setja ber í for­gang; umhverf­is­vá, netógnir og skemmd­ar­verk á innviðum sam­fé­lags­ins, auk slysa vegna auk­inna umsvifa á norð­ur­slóð­um; Í öðrum flokki lenda m.a. ógnir af skipu­lagðri glæp­a­starf­semi, fjár­mála- og efna­hags­ör­yggi, fæðu- og mat­væla­ör­yggi ásamt heil­brigð­is­ör­yggi og far­sótt­um, auk hryðju­verka—­sem færst hafa upp um flokk. Hern­að­arógnir lenda í þriðja og neðsta flokkn­um.

Í ofangreindri skýrslu kemur fram að ljóst sé að NATO aðild muni ekki fullnægja öllum varnarþörfum Íslands en þó megi fullyrða að hún sé mjög hagkvæm trygging á því sviði. Meira þurfi til. Hins vegar hefur ekkert verið gert í málinu allar götur síðan 2010 og má rekja það til pólitískt áhugaleysi stjórnmálastéttarinnar.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR