Nýr flokkur, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn hefur fengið úthlutað listabókstafnum O.
Fyrir flokknum fer Guðmundur Franklín Jónsson sem bauð sig fram gegn sitjandi forseta í síðustu forsetakosningum. Þótt Guðmundur hafi vonast eftir betra gegni í forsetakosningunum náði hann samt einhverjum þeim besta árangri sem einstaklingur hefur náð í framboði gegn sitjandi forseta en í kringum 14.000 kjósendur sáu ástæðu til að kjósa Guðmund og styðja við málflutning hans gegn spillingu.
Guðmundur hefur farið hart fram undanfarið á netinu gegn hugmyndum um að ríkið selji Íslandsbanka og kallað þá sölu þjófnað. Hann hefur líka talað mikið um að leyfa almenningi að koma að stórum ákvörðunum með þjóðaratkvæðagreiðslum og talað vel til lands og þjóðar. Virðist það tal fara sérstaklega illa í vinstrimenn sem virðast hafa horn í síðu hans og beitt sínum mönnum á fjölmiðlum til að reyna að koma höggi á hann með því til dæmis að reyna að benda á hann sem sérstakan Trump aðdáanda sem hans aðal galla.
Gagnrýnir fjölmiðla
Guðmundur hefur ekki skafið utan af því þegar hann talar um íslenska fjölmiðla og fjölmiðlamenn og segir þá vinna að því að viðhalda sama kerfinu. Hann hefur til dæmis sagt það í viðtali við hinn öfgafulla vinstrimiðil Stundina, að Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn muni ekki gefa upp strax hverjir skipi lista hjá flokknum vegna þess að þekkt sé að fjölmiðlar muni þá nota tímann til að dreifa óhróðri um frambjóðendur. Þannig sé hin íslenska blaðamennska. Hún gangi út á að passa upp á aðeins ákveðnar stjórnmálastefnur megi heyast og reynt sé að kveða nýjar strax í kútinn.
Stefna á að halda opin stofnfund
Eftir því sem skinna.is hefur fregnað er frekar stefnt á að halda opin stofnfund í vor ef aðstæður leyfa heldur en að halda slíkan fund á netinu. Næstu vikur verður stefnan kynnt jafnt og þétt og stóru málin þar fyrst á dagskrá svo sem sjávarútvegsstefnan en Guðmundur hefur verið afar gagnrýnin á kvótakerfið og sagt að í því kerfi sé verið að braska með eignir þjóðarinnar af litlum forréttindahópi.