Forseti Íslands og alþjóðasamningar

Eins og áður hefur komið fram, heldur lítið reynt á núverandi forseta hvað varðar alþjóðasamninga og reyndar aðeins í eitt sinn. Það er orkupakkamálið svo kallaða en þar féll Guðni Th. Jóhannesson á prófinu. Honum gafst þar tækifæri til að setja málið í hendur æðsta dómsstóls, í vald þjóðarinnar, sem hann gerði ekki, þrátt fyrir að hafa fengið undirskriftalista þar að lútandi.

Sumir vilja halda því fram að orkupakki þrjú skipti litlu máli en aðrir segja að það mál skipti öllu hvað varðar eignarhald á auðlindum landsins. En þetta mál og önnur er varða alþjóðasamninga og skuldbindingar geta skipt sköpum fyrir framtíð landsins.

Eitt frægasta mál síðari tíma og þótt leitað væri aftur í aldir, er svo kallaða ,,Icesave málið“. Í því máli átti að skuldbinda þjóðina til að borga reikninga útrásarvíkinga og banka þeirra og hún ekki spurð álits.  Þar féll fulltrúarlýðræðið enn og aftur en Alþingi samþykkti Icesave I þrátt fyrir hávær mótmæli í þjóðfélaginu. Málinu var á endanum skotið til forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, sem stóðst prófið og sendi málið í dóm þjóðarinnar og hún var gjörsamlega ósammála ,,fulltrúum sínum“ á Alþingi og felldi samninginn.

Kíkjum hér á Wikipediu sem fer ágætlega yfir málið: ,, í kjölfarið þróaðist milliríkjadeila á milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar um það hvort og þá að hvaða marki Ísland bæri ábyrgð á reikningunum og því einnig ábyrgð á endurgreiðslu til Bretlands og Hollands. Þrjár tilraunir voru gerðar til þess að semja um málið. Í fyrsta skiptið samþykkti Alþingi endurgreiðslusamning með fyrirvörum sem Bretar og Hollendingar felldu sig ekki við. Í annað skiptið samþykkti þingið endurgreiðslusamning sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði staðfestingar og vísaði til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem samningurinn var felldur með miklum meirihluta. Þriðji samningurinn um Icesave fór áþekka leið og var felldur i þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011.“

Málalokin voru Íslendingum hagstæð, því þegar ljóst var að samningaleiðin var fullreynd hóf eftirlitsstofnun EFTA undirbúning málssóknar fyrir EFTA-dómstólnum vegna meintra brota Íslands á skyldum sínum samkvæmt samningi um evrópska efnahagssvæðið. Dómur féll 28. janúar 2013 með því að Ísland var sýknað af öllum liðum málsins.

Snúum þá aftur að núverandi forseta Íslands sem á þessum tíma var virtur og er enn virtur fræðimaður. Ekki má rugla saman fræðimanninum og einstaklingnum sem hefur sínar pólitísku skoðanir.  Hann, líkt og með orkupakkamálinu, vildi ekki standa með þjóðinni og stóð með Alþingi sem samþykkti samninga sem þjóð var alfarið mótfallin.

Í Sprengisandi á Bylgjunni svaraði Guðni því hvar hann stóð í Icesave og hvort hann hafi verið hlynntur Icesave-samningum: „Ég skal bara svara því hvar ég stóð í Icesave, 1, 2 og 3. Úr því að þetta voru Icesave 1,2 og 3. Um Icesave 1 fengum við kjósendur ekki að ráða neinu. Það voru bara 64 Íslendingar sem fengu að kjósa um Icesave 1.“

Í Viðskiptablaðinu segir jafnframt: ,,Guðni Th. stóð bara alls ekki þarna í Icesave I. Hann var fylgjandi samningnum, sem kenndur hefur verið við Svavar Gestsson, eins og kemur svo skýrt fram í tímaritinu Grapevine sem kom út 19. júní 2009.

„Það getur verið að okkur líki Icesave-samningurinn illa, en hinn kosturinn er miklu verri og kannski er þetta það besta sem við, eða einhver annar, gæti fengið. Haldið eða sleppið, það eru skilaboðin sem við fengum. Ég held að hver sá sem gagnrýnir samninganefndina fyrir linkind sé að horfa, viljandi eða óviljandi, framhjá því hversu ótrúlega erfið staða íslenskra stjórnvalda er.“ Heimild: https://www.vb.is/skodun/gudni-th-og-icesave/127673/

Með öðrum orðum sagði hann þann 19. júní 2009, í blaðinu Grapevine: „Það getur verið að okkur líki Icesave-samningurinn illa, en hinn kosturinn er miklu verri og kannski er þetta það bezta sem við eða einhver annar gæti fengið.“ Á ensku útleggst þetta en viðtalið var á ensku: „We might not like the Icesave deal, but the alternative is much worse, and maybe this is the best we or anyone else could get.“

Hann sá svarta framtíðarsýn, ef samningurinn yrði ekki samþykktur: „…augljóslega, ef Ísland myndi segja, að við ætluðum ekki að samþykkja þetta [Icesave-samninginn], þá myndi það gera okkur nánast eins einangruð og Norður-Kóreu eða Búrma (obviously, if Iceland were going to say, we´re not going to accept this, that would pretty much make us as isolated as countries as North Korea or Myanmar).“

Það er augljóst að reynslan af setu Guðna Th. á forsetastóli og það að hann hafi raungert það sem hann sagði um Icesave, að hann er mjög tregur til að beita málskotsréttinum og treystir alfarið á Alþingi og ,,visku þess“.  Út á þessi mið munu væntanlega forsetaframbjóðendur róa, þ.e.a.s. ef þeir birtast og ef þeir geta safnað nægilegum fjölda undirskrifta.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR