Ferðamannaiðnaðinum á Norður-Ítalíu blæðir: Feneyjar eru „tómar“

Ferðamannaiðnaðurinn á Norður-Ítalíu hefur orðið fyrir miklu höggi vegna kórónaveirunnar. Engir gondólar eru á ferðinni því engir eru ferðamennirnir. 

Útséð er um að Ítalir muni tapa milljörðum vegna veirunnar. Tómlegt er um að litast í Feneyjum en þar fylla þúsundir ferðamanna venjulega göturnar daglega. 16 milljónir Ítala eru í sóttkví.

Veitingastaðir eru tómir. Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, skrifaði snemma í morgun undir tilskipun sem bannar ónauðsynlegar ferðir fólks til og frá Lombardi-héraði en í því héraði eru stórborgir á við Mílano og Feneyjar umdæmið.

Þeir sem búa í Feneyjum en sækja vinnu í næsta bæ eða borg þurfa að sitja heima því þeir mega ekki ferðast á milli, það sama gildir um aðra á þessu samkvæmt tilskipun forsætisráðherrans frá í morgun. 

Mílano er fjármálamiðstöð Norður-Ítalíu en þar eru líka iðnaðarhéröð sem halda efnahag landsins gangandi.

Hóteleigendur í Feneyjum eru farnir að örvænta því litlar sem engar bókanir eru fyrir komandi sumar og mikið um afbókanir. Þær fáu bókanir sem eru að berast eru vegna jóla og nýs árs frá fólki sem veðjar á að þá verði veirufaraldurinn um garð genginn.

Fréttir hafa einnig borist af því að 90% hótelbókana í Róm fyrir mars hafi verið afbókaður.

Banki býðst til að veita fé í baráttuna gegn veirunni

Ítalski bankinn Intesa Sanpaolo bauðst til þess í gær að veita 14 milljónum evra til baráttunnar gegn kórónaveirunni og enn hærri upphæð verður boðin fram til fyrirtækja í formi hagstæðra lána svo þau megi halda sér gangandi meðan faraldurinn gengur yfir.

Greinendur á fjármálamörkuðum telja að Ítalía sé á leiðinni inn í mjög djúpa og krappa efnahagslægð. 

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR