Birtingamynd trúarbragða

Íslenska þjóðkirkjan birti nýlega auglýsingu fyrir sunnudagsskóla en forsíðumyndin er frekar umdeild. Hún sýnir Jesús sem transpersónu á harðahlaupum undir regnboga. Á sama tíma eru að hefjast í París réttarhöld yfir mönnum sem sakaðir eru um aðild að skotárás á ritstjórnarskrifstofu franska blaðsins Charlie Hebdo fyrir fimm árum. Þeir drápu ellefu manns fyrir að birta skopmynd af spámanninum Múhameð.

Þessi birtingamynd trúarbragðanna sýnir að það er himinn og haf á milli þessara trúarbragð og viðhorfa áhanganda þeirra. Vestræn kirkja, sérstaklega sú sem er rekin af ríkinu og flokkast sem mótmælendatrú er sífellt að verða frjálslindari og virðist það haldast í hendur við minnkandi vinsældir hennar.  Æ fleiri kjósa nú að fara ekki í kirkju nema um stórviðburð er að ræða. Það er helst þegar um fermingar, giftingar eða útfarir, sem fólk leggur leið sína í guðshús. Aðra daga tóna prestar fyrir tómu húsi.

Fyrir fimm hundruð árum klofnaði vestræna kirkjan í Evrópu sem þá var kaþólsk. Í Austur-Evrópu og að hluta til í Suður-Evrópu var rétttrúnaðarkirkjan við lýði en þessar tvær kirkjudeildir klofnuðu löngu áður.

Á Wikipedia segir að klofningur Rómaríkis í Austrómverska og Vestrómverska ríkið á 5. öld hafi leitt meðal annars af sér að kirkjan skiptist í austur og vesturhluta. Biskupinn í Róm hafði aukið völd sín smám saman og varð embætti hans að því sem kallað er páfaveldi. Páfinn krafðist þess að allar kristnar kirkjur viðurkenndu embætti hans sem leiðtoga og yfirmann kristni. Austurkirkjurnar neituðu að sætta sig við það og ákærðu latnesku kirkjuna um rangtúlkanir á ýmsum trúaratriðum. Klofningurinn varð algjör árið 1054 þegar sendimaður páfa skildi eftir bannlýsingu á patríarkanum í Konstantínópel á altarinu í Hagia Sofia kirkjunni.

Á miðöldum varð kaþólska kirkjan æ öflugri og páfinn í raun öflugasti leiðtoginn í Evrópu. Það breyttist með eflingu þjóðríkisins og því var það tímaspursmál hvenær þjóðkirkjur yrðu til í kaþólska hlutanum. Upp úr sauð þegar bygging Páfagarðs fór úr böndunum og kostnaðinum velt yfir á almenning. Mönnum ofbauð bruðlið og spillingin. Marteinn Lúter var ekki sá fyrsti sem reið á vaðið og vildi breytingar, en hann var fyrsti trúarleiðtoginn sem tókst að kljúfa einingu kaþólsku kirkjuna.

Á Wikipedia segir að hin evangelíska lútherska kirkja sé kirkjudeild sem stundar og boðar þá grein kristinnar trúar sem Marteinn Lúther stofnaði og er kennd við hann og boðun fagnaðarerindisins (evangelíon). Kennilega greinir hún sig frá öðrum kirkjudeildum með Ágsborgarjátningunni (frá 1530), höfuðjátningu lútherskra manna. Lúterska kirkjan átti eftir að klofna aftur og hefur æ síðan klofnað í smærri einingar og nú er svo komið að þær eru ótalmargar. Flestar þeirra eru íhaldssamar og íhaldsamari en sjálfur páfinn.

Önnur stór kirkjudeild varð til við klofningu kaþólsku kirkjunnar um 1500 en það er kalvínska kirkjan öðru nafni endurbætta kirkjan eða siðbætta kirkjan sem varð til við klofning í röðum mótmælenda. Nafn kirkjudeildarinnar er dregið af siðbótarmanninum Jóhanni Kalvín en hann mótaði einna mest guðfræði hennar. Kalvínistar hafa annan skilning en Lútherstrúarmenn á ýmsum atriðum trúarinnar, til að mynda sakramentunum, biblíutúlkun og fyrirhugun Guðs og myndu flokkast sem strangtrúarmenn.

Rétttrúnaðarkirkjan lifði af og klofnaði ekki, einnig verið kölluð Austurkirkjan, er kristið samfélag sem telur sig vera runnið beint frá fyrsta kristna söfnuðinum, sem stofnaður var af Jesú og postulunum, og hafa varðveitt órofið samband milli embættismanna kirkjunnar og postulanna gegnum postullegu erfðakenninguna. Á Wikipedia segir að hún telur sig hafa best varðveitt siði og hefðir fyrsta safnaðarins og fylgja nánast þeim kennisetningum sem samþykktar voru á fyrstu sjö kirkjuþingunum sem haldin voru á tímanum frá 4. til 8. aldar. Rétttrúnaðarkirkjan er ekki miðstýrð eins og sú kaþólska, heldur eru kirkjudeildirnar sjálfstæðar þjóðkirkjur. Yfir hverri kirkjudeild er patríarki og nýtur patríarkinn í Konstantínópel af hefð meiri virðingar en hinir en er þó einungis álitinn vera „fremstur meðal jafningja“.

Lúterska kirkjan á Íslandi var framan af mjög íhaldsöm og á tímabili var fólk brennt á báli ef það var talið iðka villitrú eða galdra. Á seinni hluta 19. aldar var gefið trúfrelsi á Íslandi og til urðu margar kristnir söfnuðir, má þar nefna mormóna og kaþólska kirkjan hóf á ný innreið sína.  Allir þessir söfnuðir eiga það sammerkt að vera íhaldsamir.

Af þessari sögulegu yfirlit má sjá kristnar kirkjudeildir og söfnuðir hafa haldið sig fast við trúarsetningar og oftast klofið sig frá ,,móðurkirkjunni“ ef þeir telja hana ekki vera nógu íhaldssama eða fara rétt eftir kennisetningum Biblíunnar.  Því má spyrja á hvaða vegferð er íslenska þjóðkirkjan? Það er enginn sem knýr á um að hún breyti um kennisetningar eða form, það er eins og hún telji sig nauðbeygða til að eltast við tíðarandann sem nú er mjög frjálslindur.

Þrátt fyrir allt frjálslyndi Þjóðkirkjunnar, er umgjörð hennar og messuform mjög fornt og úrelt. Presturinn messar, framfylgir ritúelur og söfnuðirinn þegir eða syngur þegar við á.  Aðrir söfnuðir, svo sem Hvítasunnusöfnuðurinn, eru mjög líflegir og formið fullt af lífsgleði. Þeim hefur tekist að aðlaga sig að nútímanum og nota fjölmiðla, eins og t.d. sjónvarp, til að breiða út fagnaðarerindinu. Í loftinu liggur því spurningin, á hvaða vegferð er Þjóðkirkjan? Eða er hún komin á leiðarenda?

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR