Jens G. Jensson skrifar: Nú eru um 20 ár liðin frá upphafi síðustu uppstokkunar til markaðs og einkavæðingar bankakerfis Íslendinga. Að þessum 20 árum liðnum eru þeir til sem telja að við séum á byrjunarreit. En svo er ekki. Fyrir 20 árum áttum við tug viðskiptabanka, sem tóku við innistæðum og héldu úti launareikningum landsmanna. Til viðbótar komu um 100 sparisjóðir, allt frá afar litlum, upp í veglega sparisjóði með umtalsverða veltu. Og enn til viðbótar voru stórir og sumir sterkir fjárfestingabankar hinna ýmsu atvinnuvega, fremst þar líklega Fiskveiðasjóður samtengdur lögbundnum Stofnfjársjóði Sjávarútvegs, og sambærilegir sjóðir innan landbúnaðar og iðnaðar. Til viðbótar við alla þessa flóru, var Seðlabankinn notaður sem bakhjarl til fjármögnunar á framleiðslu, a.m.k. sjávarfangs sem veðsetningarbanki fyrir birgðahald greinarinnar. Þarna var í raun, ef litið er yfir sviðið aðskilnaður milli fjárfestingabanka og viðskiptabanka, innistæður landsmanna voru í litlum mæli notaðar til fjárfestinga í grunnatvinnuvegunum.
Peningaöflin komust á blóðbragðið við einkavæðingu og veðsetningu sjávarútvegsauðlindarinnar. Hér er ekki talað um veðsetningu á birgðahaldi í frysti eða salti, heldur væntanlegum afla, enn syndandi í sjónum. Fór þungur og óstöðvandi snjóbolti af stað. Byrjaði með sameiningu margra Viðskiptabanka, síðan sameiningu Fjárfestingabanka, síðan einkavæðingu viðskiptabankanna og að lokum samruna Fjárfestingabanka Atvinnulífsins inn í Íslandsbanka. Bankastarfsemi á íslandi var komin á þrjár hendur, að frátöldum um 100 Sparisjóðum. Þessi vegferð sem tók minna en 10 ár, var vörðuð af góðum ásetningi, eins og margar glæfraferðir eru gjarnan. Þegar hingað var komið, var Seðlabanki landsmanna ekki lengur bakhjarl atvinnulífsins, en var orðinn bakhjarl einkarekinna banka, sem notuðu Seðlabankann til að geyma umframpeninga sem þeir höfðu fengið leyfi til að prenta og gátu ávaxtað þar í öryggi.
En, mikið vill meira, og nú var róið á önnur mið og minna fengsæl miðað við togtíma, ef svo má að orði komast. Það voru enn um 100 frjálsir Sparisjóðir, sem völsuðu með innstæður launafólks víðsvegar um landið. Þetta var ólíðanlegt, að það skyldi finnast “Fé án hirðis” í Fyrirheitna landinu. Svona óútreiknanlegar stofnanir voru til trafala í þéttingu fjármagnsins hjá hirðunum, eins og villtur hreindýrastofn innan um hjörð af tömdum hreindýrum. Það var ekki útlánastarfsemi þessara Sparisjóða sem var hinum nýju bankaeigendum þyrnir í auga, enda oftast smálán lánuð af staðháttar- og mannviti. Það sem stakk í augun var hluti sparisjóðanna af heildarveltu almennings, veltu og launareikninga. Það var samkeppnismál að útiloka þessa keppinauta um ókeypis fjármagn, sem núna var hægt að ávaxta áhættulaust í Seðlabanka Fyrirheitna landsins. Það var hrundið af stað ferli, sem nánast allir kjörnir fulltrúar voru í raun óvilhallir vegna eigna og hagsmunatengsla. En allir græddu og hirðislausa féð fékk sinn hirðir, hjörðinni skipt hæfilega bróðurlega.
Nú voru orðnir þrír hjarðeigendur sem einhverju máli skiptu í Fyrirheitna Landinu. Þeir töldust vera “frjálst eignarhald” og fulltrúar þjóðarinnar út á við, með ótvíræðan stuðning ráðamanna sem margir höfðu komið ár sinni vel fyrir borð fjárhagslega við þessar eignatilfærslur. En á mannamáli voru þessir hjarðeigendur jafnan umtalaðir sem Íhald, Framsókn og Jafnaðarmenn, helmingaskiptareglan.
Hin “varðaða leið” til frjálsræðis og samkeppni á fjármálasviðinu hafði alla tíð verið seld almenningi og kjósendum sem besta, ódýrasta og fljótlegasta leiðin til að byggja upp innviði Fyrirheitna landsins. Kaldhæðnislega, innviði sem þá fyrir 20 árum síðan voru á mun stöðugri fótum en tilfellið er núna 20 árum seinna. Því til viðbótar hafði verið selt af ríkiseignum fjöldi annarra ríkisstofnana þar sem söluandvirðið átti að fara í fyrirfram tiltekin innviðaverkefni sem ekkert bólar á enn. Á miðri þessari “vörðuðu vegferð” varð kollsteypa sem “engum var að kenna” allavega ekki arkitektunum sem stungu út stefnur og vegalengdir vegferðarinnar. Sú kollsteypa er ekki viðfangsefni hér, né heldur hjálparstarfið sem kostaði fórnir þeirra sem urðu fórnarlömb og ábekingar vegferðarinnar.
Viðfangsefnið hér, er hvort eitthvað hafi verið lært, eða hvort mikið hafi verið lært en það séu enn þeir sem setja kíkirinn fyrir blinda augað og eru tilbúnir að leika sama leikinn aftur. Það er enginn vafi á því að hafa aðstöðu til að geyma launaumslag allra landsmanna milli útborgana, án endurgjalds. Geta lánað Seðlabanka landsmanna umframfé milli útborgana. Síðan að útiloka eða lágmarka seðlanotkun og prenta eigin seðla í formi plastkorta, sem síðan er hægt að leggja á færslugjöld við hverja notkun, allt eftir hversu mikilvægur kúnni hver er og hversu frjálst höfuð hann/hún strýkur um.
Landsmenn Fyrirheitna landsins ættu ekki að gleyma að það var mannréttindamál fyrir minna en 100 árum að fá útborguð laun í peningum. En, það var almennur vilji launagreiðenda að borga laun í úttektum. Enda var það þá, eins og nú, möguleiki til að nýta annarra fé til eigin veltu. Landsmenn ættu að spyrja sig að, hvort þeir almennt njóti slíkra mannréttinda í dag. Og ef ekki, hver svipti ykkur þeim manréttindum? Það er staðreynd að allar launagreiðslur eru þvingaðar inn á rafræna launareikninga. Það er staðreynd að allflestir launareikningar eru með jákvæða stöðu allan mánuðinn. Það þarf ekki flóknar skýringar á hversu hagstætt það er að komast í aðstöðu til að taka við launum allra landsmanna og skila þeim til baka með úttektum, sem jafnframt er hægt að taka gjald fyrir.
Banka á ekki að selja til að fjármagna innviði. Bankar eru innviðir. Bankastarfsemi á að vera frjáls, hverjum á að vera frjálst að stofna og reka banka, sem uppfyllir til þess skilyrði. En, seðlaprentun í samfélagi, líka í “Fyrirheitna Landinu”, er samfélagslegur innviður. Innviður sem ekkert samfélag getur gefið frá sér til lengri tíma.
Samfélag Fyrirheitna Landsins á að halda áunnum bankaeignum.