Af hverju mótframboð gegn sitjandi forseta?

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, var í viðtali á Útvarpi sögu í dag og ræddi við Arnþrúði Karlsdóttir. Hann kvartaði yfir kostnaði vegna væntanlegar forsetakosningar og sagði að Guðni Th. Jóhannesson, núverandi forseti, væri með 80-90% stuðning þjóðarinnar. Það á hins vegar eftir að koma í ljós í raunveruleikanum þegar dregið er úr kjörkössum, ekki fyrr og fólk verður að hafa í huga að Guðni Th. fékk ekki nema 39% atkvæða í seinustu kosningum. Það er langt í frá meirihluta stuðningur og nú gefst kærkomið tækifæri fyrir hann að fá nú fullan stuðning þjóðarinnar til starfa.

Það eru a.m.k. sjö ástæður fyrir að mótframbjóðendur er að hugsa sér til hreyfings.

Í fyrsta lagi kostar lýðræðið og það skiptir engu máli hver það er sem býður sig fram gegn honum, það er lýðræðislegur réttur allra landsmanna yfir 35 ára aldur, að gefa kost á sér til almannaþjónustu. Þetta embætti er ekki frátekið fyrir einn né neinn.

Í öðru lagi hefur Guðni sýnt ákveððið aðgerðarleysi. Hann hefur ekki verið sameiningartáknið á neyðartímum, eins og nú eru, á tímum COVID-19 veirunnar. Frægt var þegar Danakonungur reið um götur Kaupmannahafnar á tímum seinni heimsstyrjaldar og styrkti fólk í trúnni að framundan væri betri og bjartari tímar. Guðni hefur kosið að halda sig til hlés.

Í þriðja lagi var hann ekki öryggisventillinn sem margir væntu í orkupakka þrjú málinu. Undirskriftalistar voru sendir til hann, sem hann kaus að taka ekki undir né greip til eigins frumkvæðis líkt og Ólafur Ragnar Grímsson í fjölmiðlalagamálinu.

Í fjórðar lagi, á hann ekki að vera aðgerðarlaus strengjabrúða á Bessastöðum, e.k. friðarhöfðingi sem gerir ekki neitt nema að taka á móti erlendum gestum eða klippa á borða. Það er misskilningur á hlutverki forsetans. Hann er pólitískur í eðli sínu, ekki flokkspólitískur, en pólitiskur að því leytinu til að vera hluti af stjórnkerfi landsins og æðsti embættismaður landsins.

Í fimmta lagi eru nýir tímar og forsetinn, sem hefur sýnt það í verki að vera alþýðulegur, er ekki lengur óhultur fyrir mótframboði. Það sýndi sig fyrst hjá Vigdísi Finnbogadóttur, þegar hún fékk mótframboð að sitjandi forseti er ekki ,,stikkfrír”. Það hefur margt hefur breyst í íslensku samfélagi og gamla Ísland hvarf milli 1980-2000. Nú er Ísland fjölþjóðasamfélag og ræturnar við íslenska menningu og tungu eru að hverfa.

Í sjötta lagi er skortur á stefnu eða þemu í starfi forsetans. Ef Guðni hefði tengt sig við íslenska sögu og menningu, hefði hann verið meira sameiningatákn. Líkt og Vigdís sem tengdi sig við tvennt: Skógrækt og íslenska tungu (og þar með íslenska menningu) og varð geysivinsæl fyrir vikið. Hver eru einkennismerki Guðna? Hann er jú sagnfræðingur og hefði getað lagt áherslu á menningararfinn.

Og í sjöunda lagi, hefur forsetinn gífurleg völd samkvæmt stjórnarskránni. Fyrstu 30 greinar hennar fjalla nær eingöngu um valdsvið forseta Íslands og samkvæmt þeim, er hann býsna valda- og áhrifamikill. Annað hvort er stjórnarskráin óskaskrá og ekki raunverulegt plagg eða menn eru upp til hópa að misskilja hana. Sumir vilja láta reyna á  völd forsetans og er það vel, því ef eitthvað er rangt í henni, þá ber að taka það út.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR