Af hverju kemur þetta landlækni og sóttvarnalækni á óvart en ekki þjóðinni? Er þetta fólk ekki rúið trausti?

Forystumenn sem sjá eiga um varnir gegn smitsjúkdómum hér á landi segjast nú vera hissa á útbreiðslu kórónaveirunnar hér á landi. Er nema von að margir séu hissa á þessum yfirlýsingum embættismannanna þegar háværar raddir birtust strax opinberlega, meðal annars almenningur á netinu og svo einstaka þingmenn, sem bentu á að landið væri gal opið inngöngu smituðu fólki, íslensku og erlendu. Hingað koma á hverjum degi pakkfullar flugvélar frá hinum ýmsu krókum og kimum heimsins með fólk sem smitað er af kórónaveirunni. Er það ekki borðleggjandi að við þær aðstæður er ekki bara öruggt að hingað berist smit og það sem verra er að líklegt er að mikill fjöldi smitaðra fari hér í gegn. Hingað eru að koma hópar frá svæðum sem bæði vitað er að mikið er um smit og svo frá svæðum sem menn héldu að ekki væru ennþá smituð.

Karfa var um að birgja brunninn áður en barnið er dottið í hann. Í því sambandi þá til dæmis að loka fyrir komur og brottfarir frá sýktum svæðum. Sumir töluðu um að loka landinu tímabundið. Það hljómar sem mjög róttæk aðgerð. En nú þegar Ísland er að skjótast á toppinn yfir smitaða miðað við höfðatölu hljómar þetta kannski ekkert svo vitlaust. Það var ekki gert, heldur var ákveðið að fara íslensku leiðina og taka sjénsinn og mætti halda að ráðamenn heilbrigðismála hugsuðu: „þetta reddast!“

Landlæknir dregur upp úr pússi sínu gamla aðferðafræði klisju með skýringu á því að allt í einu eru svo margir smitaðir hér á landi. „Ég held það sé vegna þess að við erum að taka svo mikið af sýnum, við erum lítið land og upplýsingar komast áfram. Við erum að ganga heldur lengra en margar aðrar þjóðir, bæði að taka sýni og rekja ferðir þeirra sem hafi smitast, og vonandi er þetta merki um það,“ sagði landlæknir.

Heilbrigðisyfirvöld brugðust almenningi strax í byrjun og tóku rangar ákvarðanir, og af hverju munu menn seint skilja. Hvaða hagsmuni töldu þau brýnni en sóttvarnir á landinu?

Hvernig gert hefur verið grín að landlækni og sóttvarnalækni og þeir hæddir sundur og saman fyrir máttlausar og skipulagslausar aðgerðir af netverjum sýnir að hinn venjulegi Íslendur ber ekkert traust til þessa fólks og þeirra „ekki“ ráðstafana gegn útbreiðslu veirunnar hér á landi. Margir sem tjáðu sig á netinu virðast hafa meiri skilning og rökréttari skoðun á því hvað rétt hefði verið að gera strax í upphafi. RÚV, okkar allra, gekk svo í lið með búrókratinu þegar spyrill í viðtalsþætti átti samtal við þingkonu sem hann svo hæddi og spottaði fyrir gagnrýni hennar á viðbrögð stjórnsýslunnar í aðgerðum gegn útbreiðslu kórónaveirunnar. Það mætti beina þeim tilmælum til fréttastofu RÚV að spyrlar þeirra settu upp rautt nef í þeim viðtölum þar sem spyrillinn ætlar að vera með trúðslæti en sleppti rauðu nefi í drottningaviðtölum svo áhorfendur fái veður af því hvaða stefnu viðtölin muni taka.

Tala smitaðra hér á landi rís og smitin eru öll innflutt. Nú er bara tímaspursmál hvenær þau fara að verða heimatilbúin.

Það væri heillaráð að skipta strax um þessa embættismenn og fá nýja að borðinu til að bjarga eftirmálanum af klúðrinu sem fyrirséður er vegna aðgerðarleysis og rangra ákvarðana þeirra sem þjóðin hefur misst trú á.

Í leiðinni mætti senda fréttamenn RÚV á námskeið á húsmæðraskóla til að læra góða mannasiði.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR