Áður flúðu Kínverjar til Hong Kong – Nú flýr fólk frá Hong Kong til Taiwan

Kínverskir kommúnistar eru að herða tökin smátt og smátt á Hong Kong. Kommúnistar í Peking hafa nú þegar svikið samkomulag sem þeir gerðu við Breta þegar þeir skiluðu Kínverjum aftur yfirráðum yfir Hong Kong. Þá var gert samkomulag um að Hong Kong fengi að halda sérstöðu sinni sem byggir á lýðræði. Átti Hong Kong að fá að vera sjálfstjórnarsvæði innan Kína í 50 ár. Undanfarið hafa Kínversk yfirvöld þrotið langlundargeðið og telja greinilega að það skipulag sem ríkir í Hong Kong sé ógn við kommúnistastjórnina í Peking. Nú eru þeir búnir að gleyma loforðinu um „eitt ríki, tvö kerfi.“

CNN fjalar um málið á vef sínum og rifjar þar upp sögu manns, Ha Sze-yen, sem flúði frá Kína yfir til Hong Kong árið 1975. Þar rifjar hann upp frelsis tilfinninguna sem hann öðlaðist við það að komast úr klóm kommúnista á meginlandinu og til Hong Kong sem þá var ennþá undir stjórn Breta. Ha Sze-yen segir að engum hefði dottið í hug fyrir fyrir fáum árum að staðan í Hong Kong gæti orðið sú sem hún er í dag. Að fyrirmælum kommúnista á meginlandinu hafa yfir 10.000 stjórnarandstæðingar í Hong Kong verið fangelsaðir, sem mótmælt hafa nýjum lögum sem upprunnin eru undan rifjum kommúnistastjórnarinnar í Peking. Lögin mæla fyrir um að framselja megi fólk frá Hong Kong til Kína og augljós tilgangur laganna er að brjóta alla andstöðu í Hong Kong gegn einræðistilburðum Peking stjórnarinnar.

Nú er staðan í Hong Kong þannig að fólk getur ekki lengur um frjálst höfuð strokið. Nú flýr fólk frá Hong Kong yfir til eyjarinnar Taiwan á litlum bátum en þar ríkir lýðræði og frelsi. Taiwan fer líka í taugarnar á alræðisstjórninni í Peking og margt bendir til þess að kommúnistar á meginlandinu muni fyrr en seinna ráðsta á eyjuna og hertaka. Kínverski herinn hefur lengi verið með ógnanir á sundinu milli Kína og Taiwan. Ef Kína hertekur Taiwan er fokið í flest skjól fyrir Kínverja sem þrá það eitt að búa við frelsi. 

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR