– Hættan á að fá alvarlegar aukaverkanir af bóluefninu reynist, eins og við héldum, vera mjög lítil, segir Steinar Madsen lækningastjóri hjá norsku lyfjastofnuninni í viðtali við norska ríkisútvarpið í tilefni af tilkynningum um alvarlegar aukaverkanir sem hugsanlega má rekja til bóluefnis gegn kórónaveirunni.
Bólusetning gamalla og áhættuhópa hefur staðið síðan frá jólum og klukkan 13 í dag lýstu heilbrigðisyfirvöld því yfir að 71.971 Norðmenn hafi fengið fyrsta skammtinn af bóluefninu gegn kóvid-19.
Alls hefur verið tilkynnt um 58 aukaverkanir sem ekki eru alvarlegar, 16 alvarlegar og 30 dauðsföll frá og með fimmtudeginum 21. janúar.
Framkvæmdastjóri lækninga, Steinar Madsen, vill leggja áherslu á að langflest dauðsfalla hafi ekkert með bóluefnið að gera heldur sé það tilviljun í tíma. Þeir sem létust voru á aldrinum 80 til 90 ára og sagt er að dauðsföllin hafi átt sér stað frá tveim dögum til fimm til sex daga eftir bólusetningu.
– Síðan eru nokkur tilfelli sem við rannsökum aðeins nánar þar sem aukaverkanir eins og hiti, uppköst og vanlíðan gætu hafa stuðlað að því að magna upp undirliggjandi sjúkdóm. Við verðum að leggja áherslu á að öll þessi dauðsföll eru meðal eldra fólks með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma og það er mjög óvíst hvort samband er þarna á milli, sagði Madsen við NRK.
Vikuskýrsla norsku lyfjastofnunarinnar var unnin á sama tíma og 55.000 Norðmenn höfðu fengið bóluefnið. 104 aukaverkanirnar sem grunur er um nema þannig tæpum tveimur af hverjum þúsund þeirra sem bólusettir voru þangað til.
– Áhættan er algjörlega í lágmarki. Margir sem við höfum bólusett hafa verið alvarlega veikir. Það hafa verið hjúkrunarheimilissjúklingar og þessi fjöldi aukaverkana er ekki truflandi á neinn hátt, segir hann.
Madsen segir norsku bólusetningaráætlunina halda áfram með eðlilegum hætti en að læknar og hjúkrunarfræðingar verði samt að leggja mat á það hvort bólusetja eigi veikustu sjúklingana.
Hingað til hefur eingöngu verið greint frá grun um aukaverkanir af Pfizer / Biontech bóluefninu í Noregi. Moderna bóluefnið hefur hingað til aðeins verið gefið öldruðum í Ósló. Samkvæmt bandarísku lyfjastofnuninni var búist við að það síðarnefnda valdi aðeins fleiri aukaverkunum en Pfizer.
Noregur hefur verið með þeim fyrstu að skrá tilkynningar um aukaverkanir og hefur því fengið nokkra alþjóðlega athygli.
– Það verður spennandi að sjá hvað kemur frá hinum löndunum. Við höfum alltaf lofað því að við verðum fullkomlega opin og með allt uppi á borðum og við munum halda því áfram, segir Madsen
Dauðsföll notuð til áróðurs?
Það var þann 14. janúar sem norska lyfjastofnunin birti fyrstu skýrsluna um 29 aukaverkanir sem grunur leikur á hjá bólusettu fólki.
Af þessum málum var tilkynnt um 13 andlát meðal elstu og veikustu einstaklinganna. Þetta nemur 0,05 prósentum af þeim rúmlega 25.000 sem höfðu verið bólusettir fram að því.
– Svo virðist sem sumir þessara sjúklinga fái svo alvarlegar aukaverkanir í formi hita og vanlíðunar að það geti gert mjög alvarlegan sjúkdóm enn alvarlegri, sem að lokum mun leiða til dauða, sagði Madsen.
Kína og Rússland segja þetta sönnun fyrir því að lyfin séu ekki örugg
Fregnin um andlátin vegna aukaverkana fór víða um heim. Í rússneskum og kínverskum fjölmiðlum voru dauðsföllin notuð sem „sönnun“ fyrir því að vestræn bóluefni eru ekki örugg.
– Fréttatilkynningin sem fór út í síðustu viku hefur verið notuð í stjórnmálaleikjum í Kína, Rússlandi og víða annars staðar, segir Madsen.