Mörgum hefur fundist íslensk yfirvöld heldur róleg í tíðinni vegna kórónaveirunnar sem virðist vera að breiðast út með meiri hraða en búist var við. Vitað er að von er á mörg þúsund kínverskum ferðamönnum í heimsókn á árinu til Íslands. Fyrstu fréttir af útbreiðslu veirunnar hafa verið mjög dempaðar af kínverskum yfirvöldum og mörgum finnst sem það sama hafi verið upp á teningnum hér á landi. Í ljós hefur komið að kínversk yfirvöld sögðu ósatt í byrjun hversu hratt veiran breiddist út.
Landlæknir og sóttvarnarlæknir hafa sagt í fréttum að engin ástæða sé til að óttast og ekki væri þörf á að taka upp strangt eftirlit á Keflavíkurflugvelli.
Nú virðist vera komið annað hljóð í strokkinn.
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi í samráði við sóttvarnarlækni og embætti landlæknis vegna kórónaveirunnar.
Í tilkynningunni segir: Í lok desember 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónaveiruafbrigði er að ræða, sem nú kallast 2019-nCoV. Staðfest er að veiran smitast á milli manna og að hún getur valdið alvarlegum veikindum. Faraldurinn breiðist hratt út en enn sem komið er hafa flest tilfellin greinst í Kína.
Í ljósi þessa, og á grundvelli áhættumats Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Sóttvarnarstofnunar ESB, hefur Ríkislögreglustjóri lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (2019-nCoV).
Óvissustigi er lýst þegar grunur vaknar um að yfirvofandi sé atburður sem hefur áhrif á lýðheilsu. Í kjölfarið er samstarf stofnana aukið, sem og upplýsingamiðlun. Vöktun er efld, áhættumat endurskoðað svo oft sem þurfa þykir og birgðastaða nauðsynlegra bjarga er könnuð og skráð. Farið er yfir viðbragðsáætlanir og fyrirliggjandi verkferla.