Var úti í búð þegar læknir ráðlagði honum að láta athuga fæðingarblett

Fyrir nokkrum vikum var maður nokkur. Jørgen Bæk, staddur í versluninni Bilka í Danmörku ásamt vini sínum. Þar sem hann stóð og beið eftir að vinurinn greiddi fyrir þær vörur sem hann var að kaupa kom ókunnugur maður að máli við hann. Sá sagðist vera læknir og hann hefði tekið eftir fæðingarbletti á kinninni á Bæk sem honum fanst ekki líta vel út. Læknirinn ráðlagði Bæk að fara strax til læknis og láta athuga fæðingablettinn. Að svo mæltu gekk maðurinn á brott.

Venjulega er Bæk með alskegg sem hylur fæðingablettinn en þennan sama dag hafði hann rakað af sér skeggið og var hann því vel sýnilegur. 

Þegar Bæk sagði vini sýnum frá því sem gerst hafði hvatti vinurinn Bæk til að taka manninn alvarlega, hann hefði jú sagst vera læknir!

Atvikið átti sér stað á föstudegi. Á mánudegi hringdi Bæk í lækni og fékk tíma á þriðjudegi hjá húðlækni og á föstudegi var hann sendur í aðgerð á sjúkrahúsi.

Í ljós kom að fæðingarbletturinn var farin að sýna forstigseinkenni krabbameins.

Bæk er að vonum mjög þakklátur ókunna lækninum sem gæti hafa bjargað lífi hans með því að gefa sér tíma í versluninni til að hvetja Bæk til að fara til lækns. 

Bæk hefur sagt sögu sína í fjölmiðlum með það að markmiði að ná sambandi við ókunna lækninn og þakka honum fyrir greiðann. Hann segist eiga eðalrauðvín frá Suður-Afríku sem hann vilji gefa ókunna lækninum í þakklætisskyni. Að sögn danska ríkisútvarpsins er þetta ekki í fyrsta sinn sem svona atvik á sér stað.Árið 2017 var maður þátttakandi í umræðuþætti í sjónvarpi. Eftir þáttinn höfðu einir fjórir læknar samband við manninn og hvöttu hann til að fara til læknis vegna þess að þeir töldu skjaldkyrtil mannsins ekki starfa rétt. Þetta réðu þeir af því að þeim fannst hendur og fætur mannsins óvenju miklar um sig. Í ljós kom við skoðun á manninum að skjaldkyrtillinn var ofvirkur vegna offramleiðslu á hormóni í heila mannsins sem barst frá æxli við heilann. Það reyndist þó góðkynja.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR