33 tyrkneskir hermenn voru drepnir í loftárás sem talið er að Rússar hafi framkvæmt. Tyrkir forðast að segja það beint út að Rússar séu sökudólgurinn en benda í staðin á sýrlenska herinn og hefur Assad Sýrlands forseti fengið það óþvegið í tyrkneskum fjölmiðlum.
Fjölmiðlar enduróma ásakanir tyrkneskra yfirvalda en gögn sem safnað hefur verið saman í Idlib, svo sem myndir og upptökur, benda sterklega á Rússa segir breska blaðið The Guardian.
Vopnahlé var gert í Idlib og voru Rússar aðilar að því samkomulagi. Það er þó ljóst að vopnahléið hefur ekki verið pappírsins virði undanfarið.
Rússar og Sýrlendingar vilja ná þessu síðasta svæði sem er á valdi uppreisnarmanna en Tyrkir þvælast þar fyrir
Tyrkir segjast hafa hefnt og drepið 300 hermenn al-Assads
Tyrkir hafa gert beinar árásir á sýrlenska herinn og segjast hafa fellt um 300 hermenn. En í yfirlýsingum Tyrkja er ekkert minnst á Rússa. Tyrkir virðast reyna að komast hjá beinum átökum við Rússa en ráðast á Sýrlendinga til að setja óbeinan þrýsting á Rússana eða koma til þeirra skilaboðum um að næst muni þeir ekki láta sem þeir sjái ekki rússnesk skotmörk.
Hræðast bein átök við Rússa
Tyrkir hafa áður lent í beinum átökum við rússneska herinn þegar þeir skutu niður þotu Rússa 2015 sem var á flugi yfir Sýrlandi. Rússar svöruðu ekki með hernaði gegn Tyrkjum en beittu þá efnahagsþvingunum meðal annars með því að banna rússneskum ferðamönnum að heimsækja Tyrkland. Það hafi mikil áhrif á tyrkneskan efnahag. Síðan þá hefur Erdogan forseti Tyrklands reynt að sættast við Pútín með því til dæmis að panta vopn af Rússum.
Tyrkir milli steins og sleggju – Hver vill hjálpa Tyrkjum?
Í höfuðstöðvum NATO er litið svo á að Tyrkir hafi komið sér sjálfir í þá stöðu sem þeir eru í gagnvart Rússum í Sýrlandi. Ekki síst eftir að Tyrkir keyptu vopnabúnaðinn af Rússum og líkar mönnum ekki sleikjuskapur Tyrkja gagnvart Pútín. Víst er að síðasta ákvörðun Erdogans að opna landamærin fyrir flóttamönnum til Evrópu mun síst bæta samband Tyrklands við NATO og Evrópu.