Sala á íslensku kjöti jókst lítillega árið 2019 þrátt fyrir verulega fækkun ferðamanna Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Bændablaðsins.
Innlend framleiðsla dróst saman um 2,2% en innflutningur á kjöti jókst um 22,4%. Heildarsala á kjöti frá bændum á Íslandi jókst um 0,6% á árinu 2019, en alls seldust nærri 29.000 tonn á árinu. Þetta gerist þrátt fyrir afar litla fjölgun landsmanna, eða um 0,015%, sem er 57 manns og 13,8% fækkun ferðamanna.
Samkvæmt tölum frá starfsfólki í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, sem áður tilheyrði Búnaðarstofu, var um að ræða 2% aukna sölu á íslensku alifuglakjöti. Þá var um 0,9% aukning í sölu á nautakjöti og veruleg aukning í sölu hrossakjöts, eða um 23,1%. Örlítill samdráttur var í sölu á sauðfjárafurðum, eða um 0,1%, og um 2,9% samdráttur var í sölu á svínakjöti.
Ljóst er að íslenskar kjötvörur eru í talverðri samkeppni og gæti verið talsvert meiri ef litið er á sívaxandi innflutning á kjöti. Fróðlegt verður að fylgjast með kjötinnflutningi á nýbyrjuðu ári í ljósi heimilda í lögum til að flytja inn ferskar og ófrystar kjötvörur. Á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 22,4% samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um innflutning frá desember 2018 til nóvember 2019. Í heild voru flutt inn tæp 4.400 tonn af kjöti sem samsvarar hátt í allri innanlandsframleiðslu á nautakjöti segir í frétt Bændablaðsins.