Maðurinn sem kom vitinu fyrir ríkisstjórnina?

Mörgum íslendingum er létt við að loksins virðist sem landamæri landsins séu tryggari í vörnum gegn kórónaveirunni eftir að yfirlögregluþjónn í landamæradeild lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli kvað mjög ákveðið að orði á blaðamannafundi þríeykisins í vikunni.

Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn tók nýleg dæmi af því hvernig ferðalangar auðveldlega kæmu sér hjá sóttkví eftir að hafa hafnað skimun á landamærunum og hveru úrræðalaus landamæralögreglan væri gegn því. Sagði hann skrítið að nú í miðjum janúar 2021 væru stjórnvöld ekki búin að taka á málinu með lagasetningu og skikka ferðalanga í ákveðið ferli.

Svo virðist sem stjórnmálamennirnir hafi hrokkið upp við dæmin sem Sigurgeir nefndi og hysjað upp um sig buxurnar. Mætti segja að hann hafi komið vitinu fyrir stjórnvöld?

Sóttvarnalæknir mun oft hafa nefnt hertar aðgerðir á landamærunum við stjórnmálamennina en alltaf fengið loðin svör um lögmæti slíkra aðgerða. Sigurgeir virðist hafa sópað efasemdum þeirra á haf út því nýjar aðgerðir á landamærum voru samþykktar í skyndingu í ríkisstjórn og gilda nú á landamærunum. Nú er öllum sem koma til landsins skylt að fara í sýnatöku á flugvellinum og síðan fimm daga sóttkví þar til kemur að sýnatöku tvö.

Sigurgeir segir í samtali við mbl.is: „Það er mjög þakkarvert að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fara þessa leið,“ og nefnir líka í viðtalinu að nú hafi verið fyllt upp í sprungu í varnargarðinum gegn kóvid.

Sigurgeir bendir á að upptök veirunnar sem við glímum nú við sé einmitt þau „…að tveir hafi komið inn í landið, farið á svig við sóttkví og þar með hrundið faraldrinum af stað á ný.“

Einn þingmaður setti fram efasemdir um hertar aðgerðir á landamærunum en það var Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar.

Sigurgeir fer villur vegar þegar hann þakkar ríkisstjórninni fyrir aðgerðirnar þar sem það er honum sjálfum alfarið að þakka að ríkisstjórnin drattaðist í þær aðgerðir sem hann kallaði eftir.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR