Eigandi Subaru Forester bifreiðar árgerð 2016 hélt að það yrði ekki mikið mál að skipta um framljósaperu í bílnum. Eigandinn fór með bílinn í smurningu á viðkennt verkstæði af umboðinu og bað um að skipt yrði um framljósaperuna í leiðinni. Stuttu seinna var hringt frá verkstæðinu og tilkynnt að það væri ekki hægt að skipta um ljósaperuna eina og sér. Bíllinn er framleiddur þannig að ef framljósaperan fer þá þarf að skipta um alla samlokuna og hún kostar hvorki meira né minna en 250 þúsund krónur. Það er því einfalt að reikna út að ef að báðar framljósaperurnar ónýtast þá kostar 500 þúsund krónur að skipta um þær báðar og er þá vinna ekki með talin.
Kaupendur nýrra bíla athugi vel kostnað
Það er því ærin ástæða fyrir kaupendur nýrra bíla að athuga atriði eins og kostnað við það sem flestir myndu telja smáatriði í rekstri bílsins.
Margir bílaframleiðendur eru farnir að setja á markað bíla sem eru þannig að eigandinn getur ekki skipt sjálfur um framljósaperur eða stefnuljósaperur því ómögulegt er að komast að perunni nema setja bílinn hreinlega á verkstæði. En í þessu tilfelli er ekki einu sinni um það að ræða að vel útbúið verkstæði geti komist að perunni til að skipta um hana.
Eiganda umræddrar Subaru bifreiðar var sagt á verkstæðinu að þeir hefðu séð hærri kostnað vegna framljósaperu í nýrri gerð Subaru bifreiðar eða um 360 þúsund krónur enda þurfti í því tilviki líka að skipta um allt settið eins og það leggur sig því ekki var hægt að skipta um peruna sjálfa.
Það er því rík ástæða eins og áður segir fyrir kaupendur nýrri eða nýrra bíla til að athuga vel hver kostnaðurinn er þegar skipta þarf um eina litla ljósaperu í framljósi bílsins og er þeirri ábendingu hér með komið á framfæri.