Hræsni þeirra sem vilja „nýja“ stjórnarskrá

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með hvernig fólk sem vill nýja stjórnarskrá hefur hegðað sér. Nýlega skrifaði lögmaður grein í Morgunblaðið þar sem hann benti á nokkra ágalla í málflutningi þessa fólks. Eins og til dæmis að hvernig það hefur hent fram einhverju slagorði og svo frasanum „Við þurfum nýja stjórnarskrá,“ eins og það muni leysa öll vandamál hér á landi. Greinarhöfundur lögmaðurinn Teitur Gissurarson segir jafnframt í grein sinni:

„Sem dæmi hefur hreyfingin sett mikinn þunga á að taka auðlindir og auðlindaákvæði fyrir. Skilaboðin eru svo til á þessa leið: „Vissir þú að til er fullt af fólki sem græðir á fisknum þínum? … við þurfum „nýju stjórnarskrána“.“ Sneitt er hjá því að útskýra hvernig peningarnir eiga svo að enda í vasanum hjá áheyrandanum, en lagt upp fyrir hann að álykta sem svo að skrifi hann undir heila stjórnarskrá þá muni þetta allt breytast eins og hendi sé veifað,“ segir lögmaðurinn í grein sinni í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag.  

Það sem hefur vakið athygli ritstjórnar er krafa þessa hóps um að það eigi að taka drög að nýrri stjórnarskrá eða tillögur stjórnlagaráðs óbreyttar upp í nýja stjórnarskrá og það eigi að byggja á þeim ákvæðum sem samþykkt voru í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Athugið – að það eigi að byggja á þeim ákvæðum sem samþykkt voru í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Eða varla verður málflutningur þeirra skilin öðruvísi?

En það er bara einn galli við málflutning þessa fólks. Hræsni á hæsta stigi og leiðir hugann að því hvort ekki búi þarna annað að baki? Augljóst er að þeir sem hafa talað mest og hæst fyrir hönd þessa hóps eru kommúnistar, sósíalistar og ESB sinnar. Þar má einnig sjá öfgafemínista. Það þarf ekki annað en að horfa á fréttir til að sjá hvaða andlit þetta eru sem talsmenn „nýju stjórnarskráarinnar.“

En þar má líka finna ólíklegasta fólk sem hefur látið glepjast en gengur gott eitt til.

Það á nefnilega að taka inní nýja stjórnarskrá bara það sem er þeim að skapi sem nú reyna að véla um hana og þegar öllu er á botninn hvolft á alls ekki að byggja á þjóðaratkvæðagreiðslunni. Að þjóðin hafi kosið þessa stjórnarskrá gildir nefnilega ekki um alla liði sem settir voru í þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Spurt var í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem var auðvitað bara farsi í boði Jóhönnu Sigurðardóttur, versta forsætisráðherra sem þessi þjóð hefur átt, um hvort þjóðin vildi hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá.

Spurningin var eftirfarandi: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi“ (sjá hér niðurstöður).

Já svöruðu 51,1%. 

Nei sögðu 38,3%.

Þetta ætla þeir sem nú standa fyrir herferð um nýja stjórnarskrá að hunsa og þegja um. Þetta er auðvitað hræsni og sýnir vel að þeim liggur annað á hjarta og það er að dómi ritstjórnar að fá ákvæði í núverandi stjórnarskrá um að við getum ekki framselt frá okkur fullveldi burt, þeir vilja það burt. Allt annað sem þeir segjast berjast fyrir er gulrót.

Það er hægt að gera nokkrar alvarlegar athugasemdir við þau drög sem stjórnlagaráð skilaði af sér um nýja „stjórnarskrá.“

Í „nýrri stjórnarskrá“ er gert ráð fyrir að burt falli ákvæði um að heimilt sé að banna félagasamtök sem beita ofbeldi. Þannig hefur það ekki stoð í „nýrri“ stjórnarskrá að banna til dæmis hryðjuverkasamtök á borð við NO BORDERS eða samtök nýnasista eða öfgasamtök á borð við Antifa, ofbeldisfull samtök vinstrimanna. Hvað þá skipulögð glæpasamtök. Ákvæðið er í núverandi stjórnarskrá Íslands og kemur úr þeirri dönsku. Danir nýttu sér þetta ákvæði nýlega og bönnuðu skipulögð glæpasamtök sem aðallega eru skipuð innflytjendum og kallast Loyal To Familia. Löggæsluyfirvöld þar í landi segja að það hafi skipt miklu máli að hafa getað bannað samtökin á grundvelli stjórnarskrárinnar. Þetta á að afnema ef „nýja stjórnarskráin“ kemst í gildi.

Annað sem ber að nefna er að það er mjög ólýðræðislegt að hver sem er geti ekki spurt stjórnlagadómstól (sem kallaður er Lögrétta í „nýju stjórnarskránni“) nema alþingismenn! Af hverju má fólkið í landinu ekki spyrja líka eins og leyft er í öðrum Evrópulöndum sem hafa stjórnlagadómstól (Lögréttu)? Hvað veldur? Treysti Stjórnlagaráðið ekki almenningi þegar á hólminn var komið?? Sennilega ekki. Fulltrúar á Stjórnlagaþingi virðast bera sama vantraust til almennings og þingmenn eru sakaðir um.

Vantraust Stjórnlagaráðs og hroki í garð almennings sést líka í tillögum þeirra um þjóðaratkvæðagreiðslur. Veit fólk að ef upp kemur nýtt Icesave-mál og „nýja stjórnarskráin“ er komin í gildi þá má almenningur ekki kjósa um málið. Við hefðum með öðrum orðum ekki mátt kjósa um Icesave ef „nýja stjórnarskráin“ hefði verið í gildi á þeim tíma.

Veit fólk að „nýja stjórnarskráin“ setur það í hendur Alþingis hvort mál sem kosið er um í þjóðaratkvæðagreiðslu sé bindandi. Nei, líklega veit fólk það ekki því um það er þagað af hálfu þeirra sem standa fyrir herferðinni „Hvar er nýja stjórnarskráin“. Ekki má kjósa um: fjárlög, fjáraukalög, lög til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum (Icesave), skattamálefni eða ríkisborgararétt

Ekki var traust þessa fólks mikið til hins venjulega íslendings og kjósenda þegar þau sömdu þessi tilgangslausu drög að „nýrri stjórnarskrá“. 

Ekki nóg með það, Alþingi þarf ekki að spyrja þjóðina um breytingu á stjórnarskrá ef 5/6 alþingismanna samþykkja breytinguna. Af hverju er það?? En eitt dæmið um það vantraust sem þjóðinni er sýnt.

Við þurfum ekki nýja stjórnarskrá. Krafa fólksins hlýtur að vera að farið sé eftir núverandi stjórnarskrá en margir þeir sem nú segjast berjast fyrir nýrri stjórnarskrá eru hlynntir flokkum og hafa jafnvel verið í framboði fyrir flokka sem ganga fremstir í að virða ekki núverandi stjórnarskrá. Ef stjórnmálamenn virða ekki núverandi stjórnarskrá heldur fólk þá að það sé einhver von til þess að þeir virði „nýju stjórnarskrána?“

Auðvitað er ýmislegt forvitnilegt og nýtilegt í þeim tillögum sem liggja eftir Stjórnlagaráðið. En núverandi stjórnarskrá má bæta með mjög einföldum hætti þannig að þjóðin hafi taumhald á hvítflibba elítunni hér á landi. Það má bæta inn í hana ákvæði um skilyrðislausar þjóðaratkvæðagreiðslur, hvort heldur ef til þeirra er stofnað af Alþingi eða kjósendum og það má bæta inn í núverandi stjórnarskrá ákvæði um stjórnlagadómstól sem ALLIR geta spurt hvort lagafrumvörp eða sett lög séu í samræmi við stjórnarskrá.

Það má bæta í lokin við eftirfarandi athugasemd um það fólk sem nú stendur fyrir undirskriftasöfnun með kröfunni um að tillögur eða drög stjórnlagaráðs sem byggt á að vera á þjóðaratkvæðagreiðslunni, verði tekin „óbreytt“ inn í „nýja stjórnarskrá“ (nema auðvitað ákvæðið um þjóðkirkju sem samþykkt var með 51% atkvæða) er fólk úr flokkum sem hunsuðu og töluðu niður til undirskriftasöfnunar um að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað. Nú ætlar þetta fólk að veifa undirskriftalista með undirskriftum 40 þúsund manna og mun eflaust segja að þessar undirskriftir séu skýr vilji þjóðarinnar, en þetta sama fólk gaf skít í undirskriftir 70 þúsund manna sem skrifuðu undir með því að flugvöllurinn í Reykjavík verði þar sem hann er.

Það mun koma í ljós að verið er að draga fólk á asnaeyrunum í þessari undirskriftasöfnun um „nýja stjórnarskrá“. 

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR