Guðmundur Franklín Jónsson í forsetaframboð 2020

Guðmundur Franklín Jónsson hefur á síðustu vikum verið orðaður við forsetaframboð og hafa stuðningsmenn hans safnað undirskriftum á vefsíðu undir titlinum Guðmundur Franklín Jónsson á Bessastaði 2020.

 „Ég hef ekki tilkynnt opinberlega um framboð til forseta Íslands og ef ég geri það, verður það ekki strax, en veiran setur strik í reikninginn og kosningunum verður kannski frestað,“ sagði Guðmundur Franklín fyrir stuttu í samtali við Stundina.

„Fólk er að skora á mig og hefur gert alveg frá áramótum. Ef ég býð mig fram fer það ekki fram hjá neinum, en það kemur í ljós á næstu vikum. Veiran ræður för og ég hlýði Víði,“ sagði Guðmundur Franklín í nýlegu viðtali.

Nú hefur Guðmundur boðað til rafræns blaðamannafundar þar sem hann verður með yfirlýsingu í beinni útsendingu kl. 11 í dag.

Æviágrip

Guðmundur er 56 ára gamall, fæddur og uppalinn í Vogahverfinu í Reykjavík, nánar tiltekið fæddur í Reykjavík 31. okt. 1963. For.: Jón Ingiberg Bjarnason (f. 8. júní 1921, d. 10. feb. 1983) búfræðingur, er lengi starfaði hjá Kaupmannasamtökunum  og Guðbjörg Lilja Maríusdóttir (f. 19. feb. 1929) húsmóðir. Börn: Árni Franklín (1993), Veronika (1997), Vigdís Lilja (2001).

Menntun

Guðmundur Franklín gekk í Vogaskóla og þaðan lá leiðin í Verslunarskólann. Eftir tvo vetur þar bauðst honum að fara til Flórída í Bandaríkjunum. Ætlaði fyrst að fara sem skiptinemi en endaði í vinnu hjá gardínuverksmiðju Hilmars Skagfield í Tallahassee. Meðfram þeirri vinnu var hann einnig í skóla. „Þarna varð ég veikur fyrir Ameríku en kom heim og kláraði stúdentsprófið frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla,“ segir hann við mbl.is, 19. nóv.  2009  en þessi samantekt er að mestu byggð á þessu viðtali.

Að loknu stúdentsprófi tók við nám í lögfræði við Háskóla Íslands. Hugurinn var hins vegar farinn að leita til Bandaríkjanna og fékk Guðmundur inngöngu í Johnson & Wales University í Providence, Rhode Island. Þaðan lauk hann BSc gráðu í viðskipta og hagfræði árið 1989.

Löggiltur verðbréfamiðlari, General Securities Representative Exam, Series 7, 10 og 63, Financial Industry Regulatory Authority, New York, NY. 2000. Stiundaði meistaranám í alþjóða-stjórnmálum og hagfræði við Charles University, Prag, Tékklandi 2005-2008. Leiðsögumannaprófi frá Ferðamálaskóla Íslands í maí 2012.

Starfsferill

Hér heima hafði hann unnið nokkur sumur og með námi á veturna í matvöruversluninni Víði í Starmýri. Þarna segist Guðmundur hafa verið harðákveðinn í að starfa við verðbréfamiðlun í Bandaríkjunum. Hann skrifaði öllum helstu verðbréfafyrirtækjunum bréf og sótti um vinnu.

Með óvæntri aðstoð Íslandsvinarins Dan Slotts, sem var meðal hluthafa Bear Sterns, fékk Guðmundur vinnu hjá Bersec International. Guðmundur starfaði sem registered representative hjá Bersec International, Inc., New York 1989-1991 eða þar til hann var ráðinn til starfa hinum megin götunnar hjá verðbréfafyrirtækinu Oppenheimer & Co. Inc., sem þá var meðal virtustu fyrirtækjanna á Wall Street. Starfaði þar í tvö ár sem verðbréfamiðlari hjá Oppenheimer & Co., Inc. 1991-1993. Undir lok árs 1993 fór Guðmundur ásamt nokkrum fleiri starfsmönnum Oppenheimer til Burnham Securities.

Framkvæmdarstjóri fjárfestingabankasviðs og fjárvörslusviðs hjá Burnham Securities, Inc, og Burnham Asset Management, Inc, New York , NY. í Bandaríkjunum 1993-2002. Gerðist hann hluthafi og var ráðinn aðstoðarforstjóri fyrirtækisins.  

Þess ber að geta að hluti starfsins hjá Oppenheimer og síðar Burnham var að komast í kynni við íslenska fjárfesta, einkum lífeyrissjóði, og kynna þeim fjárfestingakosti á bandaríska verðbréfamarkaðnum. Hjá Burnham starfaði Guðmundur til ársins 2002.

Árið 2002 flutti hann til Prag, höfuðborgar Tékklands og stofnaði Bellagio Hotel Prague. Hótelstjóri á Bellagio Hotel, Prag, Tékklandi 2002-2009. Síðar stundaði Guðmundur meistaranám í alþjóðastjórnmálum og hagfræði við Charles University, Tékklandi. Stundakennari hjá University of New York in Prague, Prag, Tékklandi 2005-2006. Hótelstjóri á Hotel Klippen í Gudhjem á Borgundarhólmi í Danmörku síðan 2013.

Hann hefur einnig starfað í ýmsum nefndum og stjórnum fyrirtækja og félagasamtaka tengdum störfum sínum og hefur í gegnum árin kynnt fjárfestingarkosti fyrir Íslendingum í hlutabréfum, skuldabréfum, almennum iðnaði, hátækni og öðrum viðskiptaafurðum.

Guðmundur er með leiðsögumannaprófi frá Ferðamálaskóla Íslands og starfar nú sem hótelstjóri á Hotel Klippen á Borgundarhólmi.

Stjórnmálamaðurinn

Guðmundur Franklín stofnaði stjórnmálaflokkinn Hægri grænir árið 2010-13. Vorið 2016 tilkynnti hann hugsanlegt framboð til forseta Íslands, en dró það til baka þegar Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, tilkynnti óvænt um að hann yrði aftur í framboði sem hann svo síðar hætti við. Lýsti Guðmundur Franklín yfir stuðningi við hann.

Um haustið 2016 sóttist hann svo eftir sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins í Reykjavík fyrir Alþingiskosningar. Nýverið hefur hann tekið þátt í starfi Orkunnar okkar, sem beitti sér gegn innleiðingu Þriðja orkupakkans, og skrifað fjölda greina um þjóðmál.

Guðmundur Franklín Jónsson yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn 2019 eftir meira en rúma þrjá áratugi sem flokksbundinn sjálfstæðismaður. Mikil ólga hefur verið innan raða Sjálfstæðisflokksins og hafa m.a. Davíð Oddson og fleiri haft uppi mikla gagnrýni á flokkinn og það sem að hann er orðinn að, í stjórnartíð Bjarna Benediktssonar.

Guðmundur Franklin Jónsson var rétt í þessu að lýsa yfir að hann býður sig fram til forsetaembættis Íslands. Áherslumál hans er barátta gegn spillingu og málskotsrétturinn verði virkjaður. Öll lög er varða eignarhald á auðlindum verði skotið í dóm þjóðarinnar og innganga í ESB einnig.

Guðmundur Franklín endaði ræðu sína á þessum orðum: ,,

Ég heiti því og legg við drengskap minn að verði ég forseti mun orkupakki
fjögur og fimm ekki fara í gegnum mig heldur fær þjóðin að kjósa um þá. Eins
heiti ég því að ESB verði aldrei samþykkt án undangenginnar
þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég ætla mér að berjast fyrir þjóðina og hætta ekki fyrr
en þjóðin fær að eiga sínar auðlindir og sinn auð sjálf. Ég ætla að tryggja að hún
sé vel upplýst í öllum málum og fái að taka sem mestan þátt í málefnum sem
hana varðar. Mitt framboð er gegn spillingu, með auknu gagnsæi, með beinu
lýðræði og fyrir þjóðina. Þetta er það sem ég stend fyrir sem
forsetaframbjóðandi og sem manneskja.

Gleðilegt sumar!”

Uppfært 11:16

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR