Frá og með deginum í dag munu danskir grunnskólanemendur nota myndir í stað orða til að skrá sig inn í tölvukerfi skólanna.
Danskt skólakerfi hefur sett sér það markmið að útrýma bókum og stílabókum og öll kennsla á að fara fram í gegnum kennsluforrit.
Sem hluti af þessari áætlun er innskráningu í kennslukerfin í skólunum breytt þannig að nemendur ýta nú á tákn eins og til dæmis hest, bolta eða ísvöfflu í staðin fyrir að skrifa aðgangsorð.
Þetta telja sérfræðingar stofnunnar sem stýrir tölvumálum í skólakerfinu vera miklu betri leið til að fá nemendur til að muna aðgangsorð og á aðferðin að auka öryggi við innskráningu yngstu nemendanna.
Ekki eru allir sérfræðingar þó á sama máli
Norskur öryggissérfræðingur í tölvumálum, Per Thorsheim, segir í viðtali við dr.dk að þetta komi ekki til með að breyta neinu. Hann segir að rannsóknir sem hann þekki til sýni að það skipti ekki máli hvort aðgangsorð samanstandi af myndum eða af tölum og bókstöfum.
Hann mælir frekar með að aðgangsorð samanstandi af setningum eins og til dæmis „Ég bý í Kaupmannahöfn,“ eða „Ég kem frá Danmörku.“ Þetta segir hann vera einföld aðgangsorð en gott að muna fyrir börn á grunnskólaaldri.