Dingóinn, ástralski villihundurinn, er að stækka og mögulega af mannavöldum. Á vissum svæðum í landinu hafa menn brugðið á það ráð að eitra kjöt og leggja fyrir villihunda. Dingóinn er skaðræðiskvikindi í hugum margra Ástrala og hefur það oft gerst að foreldrar hafa rétt náð að bjarga börnum sínum úr kjafti hundanna. Stundum hafa börn horfið og seinna komið í ljós að þau hafa lent í kjafti villihunds.
Dæmd fyrir að hafa drepið dóttur sína
Árið 1980 gerðist það að hjón leituðu til lögreglunnar og sögðu að dóttir þeirra væri horfin og að villihundur hefði náð henni og tekið með sér. Lögreglunni fannst þessi saga tortryggileg og á endanum voru foreldrarnir ákærðir fyrir að hafa drepið dótturina. Bæði voru hjónin á endanum dæmd í fangelsi fyrir morðið. Nokkrum árum síðar, 1986, fann lögreglan föt stúlkunnar í dingóholu og var málið þá endurupptekið og 1988 voru hjónin sýknuð og látin laus úr fangelsi.
Hefur stækkað um sex til níu prósent
Nú hafa vísindamenn sem sagt fundið út að villihundurinn er að stækka og það líklega af mannavöldum. Bæði hræ af fénaði og kengkúrum hefur verið eitrað og lagt út fyrir villihunda að éta. Þessi aðferð hefur reyndar ekki verið notuð í öllum fylkjum Ástralíu en þar sem hún hefur verið notuð hefur villihundum eitthvað fækkað en þeir sem eftir eru hafa stækkað um sex til níu prósent og þyngst um allt að eitt kíló. Ef eitthvað er hefur eitrunarherferðin gegn hundunum gert þá stærri og sterkari. Ýmsar kenningar eru uppi um hvers vegna það er. Ein kenningin segir að eitrið í hræjunum sé ekki nægjanlegt til að drepa villihunda yfir ákveðinni stærð og því drepist einungis þeir villihundar sem eru veikir fyrir eða með minni skrokk. Þeir stærri lifi eitrunina af og eftir stendur að fæðuúrvalið eykst fyrir þá vegna dauða hinna. Önnur kenning hljóðar á þann veg að þar sem stærri hundar lifi frekar af þótt þeir hafi etið eitrað kjöt þá verði gen þeirra ráðandi í stofninum og því fæðist fleiri stærri villihundar. Þeirri kenningu hallast fleiri að og er bent á þá staðreynd að nú fæðist fleiri fílar með minni skögultennur en áður. Ástæðan er að veiðiþjófar sækist frekar eftir að skjóta dýr með stórar skögultennur og þar af leiðandi eyðist gen úr stofninum þar sem stærri tennur eru ráðandi.