Hnattræn hlýnun og hnignun jarðar er mannanna sök!

Fjölmiðlar eru fullir af fréttum um hitabylgjur sem ganga um jörðina örar en áður. Talað er um hitamet sem slegin eru og virðist Ísland vera eitt fárra landa sem ekki virðist vera fyrir þessum áhrifum og kann ástæðan vera að kalt vatn sem rennur frá bráðnuðum jöklum Suður-Grænland valdi því að hlýr Golfstraumur nær að ekki að streyma til Íslands og hita landið upp.  Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir Íslendinga og gæti litlar ísaldir skollið á landið reglulega.

Árið 2017 var það þriðja heitasta frá því mælingar hófust, á eftir árunum 2015 og 2016. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandarísku haf- og loftlagsstofnunarinnar (NOAA). Skýrslan ber heitið „Ástand loftslagsins“ og kemur út árlega. Samkvæmt henni var 2017 þriðja heitasta árið frá því mælingar hófust um miðbik 19. aldar.

En hverjir eru helstu áhrifaþættir á hitastig jarðar? Flestar þær greinar sem fjalla um áhrifaþætti á hitastig jarðar, fjalla um gróðurhúsalofttegundir, sólvirkni, eldvirkni, örðulosun af mannavöldum og El Nino sveifluna enda eru þetta þeir þættir sem ráða hve mestu um hitastig á hverjum tíma.

Mikið er rifist um hvor losun manna á gróðurhúsalofttegundum (GHG) sem veldur að hiti jarðar eykst samfara auknum styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu – hin auknu gróðurhúsaáhrif hafi meiri áhrif en sólvirkni sem hitar eða kælir jörðina eftir því hvort inngeislun frá sólinni inn í lofthjúp jarðar eykst eða minnkar.

Aðrir áhrifavaldar, svo sem eldvirkni getur valdið skammtímakólnun á jörðinni með því að þeyta súlfat örðum (e. sulfate aerosols) út í andrúmsloftið, en mikið magn þeirra í efri lögum lofthjúpsins dregur úr inngeislun sólarljóss og minnkar magn þess sem nær yfirborði jarðar.  Þannig örður eru ekki langlífar og skolast úr andrúmsloftinu á 1-2 árum. Því hefur eldvirkni yfirleitt bara skammtímaáhrif á hitastig.

Örðulosun af mannavöldum -mest brennisteins díoxíð (SO2) – hefur einnig tilhneigingu til að breyta hitastigi jarðar en menn eru stöðugt að losa mikið magn arða út í andrúmsloftið með því að brenna jarðefnaeldsneyti. Því er í raun um langtímaáhrif að ræða á hitastig – svo lengi sem menn halda áfram losuninni.

El Nino sveiflan (ENSO) er náttúruleg sveifla í yfirborðshita sjávar í Kyrrahafinu, sem sveiflast á milli El Nino og La Nina fasa. Þessar sveifllur standa tímabundið yfir og reglulega.

Það er ljóst að mengunarþáttur mannkyns spilar hér inn í og magnar upp a.m.k. öfgar í veðri, ef ekki breytir því alfarið og til frambúðar. 

En af hverju er mannkynið að menga svona mikið, þrátt fyrir allar sínar aðgerðir gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda?  Já, mesti áhrifavaldurinn er offjölgun mannkyns. Í nýlegri grein í breska dagblaðinu Independent, segir að mannkynið standi frammi fyrir tveim risavöxnum verkefnum á þessari öld, offjölgun mannkyns og hnattræn hlýnun jarðar. Einhverra hluta vegna einblínum við aðeins á annan hluta vandans, segir greinarhöfundurinn Michael McCarthy, og látum eins og hinn sé ekki til.  Greinahöfundur kemst að þeirra niðurstöðu að loftslagsbreytingar er  aðalvandinn og það verkefni sem verður að ráðast í fyrst!

Þetta er röng niðurstaða. Loftslagsbreytingar eru afleiðingar en ekki orsök hnignunar jarðar. Offjölgun mannkyns er meginsökin. 

Mennirnir voru um þrír milljarðar árið 1950, náðu sjö milljörðum 2011 og verða að öllum líkingum 9,5 milljarðar árið 2050. Frá og með 7. ágúst 2018 er mannfjöldinn í heiminum áætlaður 7,642 milljarðar eða 7,622,106,064 þann 14. maí 2018.  Þessi mikli mannfjöldi setur vistkerfi jarðar algjörlega úr skorðum.  Allt land sem hæft er til ræktunar er tekið undir ræktun og lítið er eftir af landi sem hægt er að bæta við. Sumt af því landi sem nú er í ræktun verður óræktanlegt í framtíðinni vegna veðurfarsbreytinga eða fer undir hækkandi sjávarborð jarðar. Hin villta náttúra er á hverfandi hveli og plöntu- og dýrategundum fækkar á ógnarhraða. 

Verstu fréttirnar fyrir mannkynið er að viðvarandi vatnsskortur er í yfir 30 þjóðlöndum og fleiri ríki eiga eftir að bætast við í náinni framtíð.  Grunnvatnsstaðan hjá fjölmennum ríkjum, eins og á Indlandi fer sífellt lækkandi og þar með fer vopnið sem hægt er að beita gegn hækkunar hitastigs, vökvun akra og drykkjarvatn handa íbúum stórborga úr höndum þessara ríkja. Sömu sögu má segja t.d. af Bandaríkjunum, en þar er gengið freklega á grunnvatn suðurhluta landsins. Meira segja í Evrópu er orðinn viðvarandi vatnsskortur á sumum svæðum.

Nú í ágústmánuði 2018 hefur mannkynið eytt forðabúr jarðar þessa árs og mun naga jörðina inn að beini það sem eftir lifir árs. Þetta er þriðja árið í röð sem þetta gerist.

Búið er að útrýma eða minnka þætti sem hafa haldið íbúafjölda jarðar í skefjun, svo sem sjúkdómafaralda, fækkun styrjalda, endurbættar nytjajurtir og afurðameiri dýrastofna og fátt sem stoppar fólk við að eignast of mörg börn. 

Sameinuðu þjóðirnar og í raun þjóðríki heims reyna lítið að setja hömlur á offjölgun jarðabúa. Kínverjum tókst með góðum árangri að hamla offjölgun í landinu með ströngum lögum um eitt barn á hjón en nú hafa þarlend stjórnvöld ákveðið að aflétta þessum hömlum og leyfa tvö börn á hjón.  Á Indlandi er þróunin stjórnlaus og þar stefnir í að landið verið fjölmennasta ríki heims og tekur fyrsta sætið af Kína. Þar eru landsvæði að breytast í eyðimerkur líkt og í Kína, áður frjósöm svæði, vegna of háan hita og skorts á vatni og ágangs fólks.

Er mannkynið að tapa orrustunni gegn offjölgun? Mun hún leiða til styrjalda eða mesta flóttamannabylgju í sögu mannkyns? Eða mun mannkynið hreinlega éta sig út á gadd og hungursneyðir herja á fátækustu ríkin?  Það er ástæða til að óttast framtíðina, jafnvel þótt að mannkynið hætti alfarið að spúa gróðurhúsalofttegundum í loftið; offjölgunin sér til þess að það verður ekki líft á jörðu innan ekki svo langs tíma.  

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR