Morgunblaðið greinir frá því í dag að Vinstri grænir hafi lagst gegn því að ráðist yrði í stórfelldar framkvæmdir á vegum Atlantshafsbandalagsins á Suðurnesjum. Var umfang framkvæmdanna talið myndu hlaupa á 12-18 milljörðum króna, en lítils mótframlags var krafist frá íslenska ríkinu.
Morgunblaðið hefur þetta eftir heimildamönnum innan ríkisstjórnarflokkanna. ,,Samkvæmt þeim hafnaði flokkurinn þessum áformum þvert á vilja samstarfsflokka sinna í ríkisstjórn, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.
Málið var ekki rætt formlega innan ríkisstjórnarinnar, en í óformlegum samtölum milli flokkanna hafnaði VG hugmyndinni alfarið. Að því er heimildir Morgunblaðsins herma fólu áformin meðal annars í sér uppbyggingu stórskipahafnar, nýrra gistirýma og vöruhúsa. Ef af framkvæmdunum hefði orðið má gera ráð fyrir að hundruð starfa hefðu skapast samhliða þeim. Þar af fjöldi tímabundinna starfa en auk þess tugir ef ekki hundruð varanlegra starfa.“
Málið vekur undrun í ljósi þess að Ísland er að fara í gegnum sína dýpstu efnahagkreppu síðan 2008 og hún gæti jafnvel orðið meiri. Fréttir berast af bágu atvinnuástandi í Reykjanesbæ og öllum Suðurnesjunum en svæðið er mjög háð atvinnurekstri tengdum flugsamgöngum og starfseminni á flugstöð Leifs Eiríkssonar. Talað er um að allt að 35% fólks á vinnualdri sé atvinnulaust og algjör óvissa er um framhaldið, hvort að stærsti atvinnurekandinn á svæðinu, Icelandair nái að bjarga sér. Munu kjósendur muna eftir þessu í næstu kosningum?
Þá vaknar spurningin af hverju? Ræður hér hugmyndafræðin frekar en bjargráðir fólksins sem býr á svæðinu? Eins og kunnugt er, þá eru VG alfarnir á móti öllum rekstri tengdum hernaðarstarfsemi, jafnvel þótt hún tengist eigin vörnum. Hallast verður að því að frekar vilja þeir að fólk sé atvinnulaust heima, á bótum hjá ríkinu, bara vegna þess að þeir eru á móti her, en þiggja milljarða króna sem getur bjargað mörgu. Ekki má gleyma að NATÓ starfsemin á Keflavíkurflugvelli og rekstur ratsjárstöðva um landið, hefur verið til hagsbóta fyrir flugstarfsemi almennt og sparað stórfé.
Er ekki kominn tími til að spyrja VG; allt í lagi, þið viljið ekki erlenda hersetu, íslenskan her og ekki vera í Atlandshafsbandalaginu, hvað þá í staðinn? Halda þeir virkilega að fólkið í landinu vilji engar landvarnir? Hefur það verið spurt nýlega? Hvað með Landhelgisgæsluna? Nú er ljóst að hún gengir ákveðnu hernaðarlegu hlutverki á stríðstímum samkvæmt lögum. Vilja VG takmarka starfsemi Landhelgisgæslunnar enn frekar?
Hvað með alla hina stjórnmálaflokkanna sem styðja veru Íslands í NATÓ? Hinir tveir stjórnarflokkarnir eru hlynntir að landið sé varið. Úr því að Íslendingar eru ennþá í þessu bandalagi, á þá ekki að taka fullan þátt í eigin landvörnum? Og hvað með nágrannaþjóðirnar? Myndu Bretar og Bandaríkjamenn sætta sig við ,,gat í varnarvirki“ Norður – Atlantshafsins – á GIUK hliðinu?
Er pólitísk afstaða VG í bókstaflegri merkingu ekki ábyrgðarlaus og úr takti við raunveruleikann?
Forsíðumynd: Navy Times, Tech. Sgt. Staci Miller/Air Force.