Vinstri grænir leggjast gegn endurreisn Suðurnesja

Morgunblaðið greinir frá því í dag að Vinstri grænir hafi lagst gegn því að ráðist yrði í stór­felld­ar fram­kvæmd­ir á veg­um Atlants­hafs­banda­lags­ins á Suður­nesj­um. Var um­fang fram­kvæmd­anna talið myndu hlaupa á 12-18 millj­örðum króna, en lít­ils mót­fram­lags var kraf­ist frá ís­lenska rík­inu.

Morgunblaðið hefur þetta eftir heimildamönnum inn­an rík­is­stjórn­ar­flokk­anna. ,,Sam­kvæmt þeim hafnaði flokk­ur­inn þess­um áform­um þvert á vilja sam­starfs­flokka sinna í rík­is­stjórn, Fram­sókn­ar- og Sjálf­stæðis­flokks.

Málið var ekki rætt form­lega inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar, en í óform­leg­um sam­töl­um milli flokk­anna hafnaði VG hug­mynd­inni al­farið. Að því er heim­ild­ir Morg­un­blaðsins herma fólu áformin meðal ann­ars í sér upp­bygg­ingu stór­skipa­hafn­ar, nýrra gist­i­rýma og vöru­húsa. Ef af fram­kvæmd­un­um hefði orðið má gera ráð fyr­ir að hundruð starfa hefðu skap­ast sam­hliða þeim. Þar af fjöldi tíma­bund­inna starfa en auk þess tug­ir ef ekki hundruð var­an­legra starfa.“

Málið vekur undrun í ljósi þess að Ísland er að fara í gegnum sína dýpstu efnahagkreppu síðan 2008 og hún gæti jafnvel orðið meiri.  Fréttir berast af bágu atvinnuástandi í Reykjanesbæ og öllum Suðurnesjunum en svæðið er mjög háð atvinnurekstri tengdum flugsamgöngum og starfseminni á flugstöð Leifs Eiríkssonar.  Talað er um að allt að 35% fólks á vinnualdri sé atvinnulaust og algjör óvissa er um framhaldið, hvort að stærsti atvinnurekandinn á svæðinu, Icelandair nái að bjarga sér. Munu kjósendur muna eftir þessu í næstu kosningum?

Þá vaknar spurningin af hverju? Ræður hér hugmyndafræðin frekar en bjargráðir fólksins sem býr á svæðinu?  Eins og kunnugt er, þá eru VG alfarnir á móti öllum rekstri tengdum hernaðarstarfsemi, jafnvel þótt hún tengist eigin vörnum. Hallast verður að því að frekar vilja þeir að fólk sé atvinnulaust heima, á bótum hjá ríkinu, bara vegna þess að þeir eru á móti her, en þiggja milljarða króna sem getur bjargað mörgu.  Ekki má gleyma að NATÓ starfsemin á Keflavíkurflugvelli og rekstur ratsjárstöðva um landið, hefur verið til hagsbóta fyrir flugstarfsemi almennt og sparað stórfé.

Er ekki kominn tími til að spyrja VG; allt í lagi, þið viljið ekki erlenda hersetu, íslenskan her og ekki vera í Atlandshafsbandalaginu, hvað þá í staðinn? Halda þeir virkilega að fólkið í landinu vilji engar landvarnir?  Hefur það verið spurt nýlega? Hvað með Landhelgisgæsluna? Nú er ljóst að hún gengir ákveðnu hernaðarlegu hlutverki á stríðstímum samkvæmt lögum. Vilja VG takmarka starfsemi Landhelgisgæslunnar enn frekar?

Hvað með alla hina stjórnmálaflokkanna sem styðja veru Íslands í NATÓ? Hinir tveir stjórnarflokkarnir eru hlynntir að landið sé varið.  Úr því að Íslendingar eru ennþá í þessu bandalagi, á þá ekki að taka fullan þátt í eigin landvörnum? Og hvað með nágrannaþjóðirnar? Myndu Bretar og Bandaríkjamenn sætta sig við ,,gat í varnarvirki“ Norður – Atlantshafsins – á GIUK hliðinu?  

Er pólitísk afstaða VG í bókstaflegri merkingu ekki ábyrgðarlaus og úr takti við raunveruleikann?

Forsíðumynd: Navy Times, Tech. Sgt. Staci Miller/Air Force.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR