Mörgum hryllir við svartsýnustu spám um útbreiðslu kórónaveirunnar hér á landi. Guðmundur Franklín Jónsson er einn þeirra. Hann gerir svartsýnustu spár um útbreiðsluna að umtalsefni í pistli á fésbókinni og setur upp dæmi sem gerir ráð fyrir að eftir 10 vikur verði allir landsmenn smitaðir af kórónaveirunni. Hann vísar í frétt sem birtist á visir.is um málið:
– Nú er ég “bara” viðskipta- og hagfræðingur en ekki smitsjúkdómalæknir en það væri þó fróðlegt að fá örlítið betri útskýringu á þessum tölum.
Í dag eru 409 smitaðir og samkvæmt “svartsýnustu” spám HÍ er gert ráð fyrir -max- 2000 smitum í lok maí. Ég tel 10 vikur fram í lok maí svo ef þessar forsendur læknisins í fréttinni eru réttar þá ætti fjöldi smita að vera:
Eftir 1 viku: 818
2: 1.636
3: 3.273
4: 6.544
5: 13.088
6: 26.176
7: 52.352
8: 104.704
9: 209.407
10: allir Íslendingar.
(Hér er ekki gert ráð fyrir hjarðónæmi)
“Hann segir ekki ólíklegt að fjöldi smitaðra gæti tvöfaldast á einni viku en það megi ekki gera ráð fyrir neinu. Undirbúningur miði við svartsýnustu spár.”
Hann bætir við í umræðuþræði á fébókinni að hann hafi strax í upphafi kórónafaraldursins í Kína bent á að Ísland ætti strax að loka landamærunum til að verjast veirunni. Guðmundur segir að allir sem vildu sjá strax í upphafi hefðu átt að átta sig á því að kínversk stjórnvöld komu ekki heiðalega fram og að það sé í eðli kínverskra kommúnista að ljúga.„Við erum komin í hrikalega stöðu. Ef að við hefðum lokað llitla og viðkvæma landinu okkar sem er eyja þann 29. janúar þegar það var til umræðu, þá værum við í góðum málum í dag…. ég benti strax á að loka landinu í janúar bæði á Youtube, fb og í podcastinu okkar. Ég er ekki læknir, en ég veit hvernig kínverskir kommúnistar haga sér og ljúga, og það tók ekki sérfræðing að sjá að þetta var stórslys af stærstu og hörmulegustu gerð,“ segir Guðmundur í umræðum um málið á fésbókinni.