Úr faraldri í byltingu sem endaði í óreiðu

Mikið hefur gengið á í Bandaríkjunum síðastliðna mánuði og ekki allt til góðs. Fyrst kom upp kórónuveirufaraldurinn sem lamaði samfélagið, gerði tug milljóna manna atvinnulausa og stöðvaði hjól atvinnulífsins. Um hundrað þúsund manns hafa fallið fyrir hinum ósýnilega óvini.

Mörg ríki Bandaríkjanna beittu hörðum aðgerðum til að hefta útbreiðslu faraldursins, borgaraleg réttindi voru mörg hver afnumin og útgöngubann sett á víða.  Faraldurinn geysar enn, en líklega hefur hann náð hámarki og er á undanhaldi.

Atburðir síðastliðna vikna, í kjölfar dráps svarts manns af hendi lögreglunnar, setur líklega strik í reikninginn og hætt við að faraldurinn blossi upp aftur í öllum mótmælagöngunum enda auðvelt að gleyma félagslegri fjarlægð í öllum látunum. En virðist svo sem margir hafi gleymt faraldrinum og sumir, flestir á vinstri væng stjórnmálanna, einblína nú á að umbylta samfélaginu á róttækan hátt.

Brotist hafa út óeirðir meðfram friðsömum mótmælagöngum og nú hefur hópur manna í Seattle stofnað ,,lögreglulaust“ svæði í miðborginni og kallað það Chaz. Um svæðið gengur vopnað lið, heimtar skilríki af fólki sem vill fara inn á svæðið og krefst ,,verndargjalds“ af verslunareigendum.

Víða í borgum ganga róttæklingar hart fram og heimta lögreglulaust samfélag eða að fjárframlög verði skert til lögreglunnar. Fólk krefst úrbóta og sumir vilja meina að um kerfisbundið misrétti sé í gangi gagnvart minnihlutahópum, sérstaklega svartra Bandaríkjamanna.

Óeirðarseggir hafa gengið harðast fram í borgum sem demókratar stjórna, enda hafa þeir síðarnefndu tekið undir raddir harðlínumanna innan hóps mótmælenda eða réttara sagt óeirðaseggja sem leggja áherslu á mál sitt með ránum, brennum og eyðileggingum á búðum saklausra smáverslunareigenda.

Demókratískir ríkisstjórar og borgarstjórar neita flestir aðstoð alríkisstjórnarinnar og eða aðstoðar þjóðvarðliðs við að kveða niður uppþotin, ofbeldið og upplausnina. Lögreglan hefur hörfað undan æstum múgi enda njóta þeir ekki stuðnings pólitískra fulltrúa í borgum og ríkjum demókrata.

Eini maðurinn sem hefur staðið fastur fyrir, er sjálfur Bandaríkjaforseti, sem segist vera forseti laga og reglna. Hann segist styðja friðsamleg mótmæli en er alfarið á móti upplausnarástandi og ofbeldi.  Met var sett í fjölda morða í Chicago og 60 ára gamalt met var slegið í fjölda morða eina helgi. Morðingjar og ofbeldismenn fela sig innan um friðsama mótmælendur og fremja myrkraverk sín í friði.

Þeir sem krefjast lögreglulaust samfélag, hafa ekki komið með neinar hugmyndir um hvað komi í staðinn fyrir lögregluna. Vilja þeir lögmál villta vestursins? Allir vopnaðir og verja sig og sína með vopnavaldi? Hvað á húseigandi að gera ef brotist er inn til hans? Láta ræna eigur sína eða leyfa nauðganir eða barsmíðar á heimilisfólki?

Einkenni fasískra ríkja eru; að aðeins ein skoðun er leyfð; málfrelsi eða tjáningarfrelsi heft eða bannað. Önnur einkenni eru bókabrennur, minnismerki eyðilögð og leyfðar bækur ritskoðaðar. Allt þetta hefur góða fólkið viðrað í mótmælum sínum undanfarnar vikur.

Og hvað ef gengið er alla leið og lögreglan afnumin? Hver verður afleiðingin ef fjármagn til lögreglunnar er lækkað? Færri lögreglumenn þýðir að þeir komast ekki yfir verkefni dagsins og hættan á mistökum eykst. Lögreglumenn þurfa að forgangsraða og sumir glæpir verða látnir eiga sig, hreinlega vegna þess að enginn mannskapur er til að rannsaka þá. Virðing fyrir lögum og reglum minnkar og gettó eða ,,no-go zone“ myndast í fátækrahverfum. Er það íbúum hverfanna til góðs? Börn geti ekki gengið í skóla án þess að eiga hættu á að verða fyrir fljúgandi byssukúlum.

Nú síðast vilja róttæklingarnir afmá söguna. Rífa niður styttur af mönnum sem þeir telja að hafa verið vonda, verið þrælaeigendur eða verið í röngu liði.  Þeir gleyma að sagan í formi bóka, stytta og annarra minnismerkja er einmitt viðhaldin til að minna okkur á sögu okkar sem er ekki alltaf bara falleg, heldur stútfull af ranglæti og vondum hlutum. Ef við eyðum sögunni, lærum við ekki af mistökum sögunnar og erum óhjákvæmilega dæmd til að gera sömu mistök og forfeðurnir, enda vitneskjulausir um mistökin.

Ef strika á út nöfn manna með kerfisbundum hætti á öllum sviðum eða þagga niður í þeim, þá er hætt við að stutt sé í ritskoðun og fasísk ríki.

Ofstækið er meira segja komið til Íslands. Menn eru farnir að amast við styttuna af Ingólfi Arnarsyni, enda þrælaeigandi og nú má ekki lengur hlæja eða grínast, það á að ritskoða húmorinn, svo enginn verði móðgaður. Hvað er þá eftir, ef ekki má brosa í gegnum tárin og gera grín að vitleysunni í gerðum samborganna? Íslenskur grínisti gaf eftir, þegar aðgerðasinni einn mótmælti harðlega og baðst grínistinn afsökunar á gríni sem snéri að Asíufólki.

Annar og mun frægari leikari og grínisti, John Cleese, sem lék í hinu geysivinsælu þáttaröð Fawlty Towers, lúffaði ekki svo auðveldlega og skammaði BBC fyrir að hafa tekið einn þáttinn af streymisveitu en í honum er gerði grín að nasistum.

John Cleese sagði: „Ég hefði vonað að einhver hjá BBC myndi skilja að það eru tvær leiðir til að gera grín að hegðun manna. Önnur er að ráðast beint á meinið. Hin leiðin er að láta einhvern sem er grínfígúra, tala gegn slíkri hegðun og sýna hversu fáranleg hún er.“

Báðar leiðirnar eru jafngildar en síðari leiðin gæti jafnvel verið áhrifaríkari, því að hún hreyfir við tilfinningum okkar.

Sagt er um byltinguna að hún éti börnin sín. Hætt er við að fólki ofbjóði á endanum ofstækið og ofbeldið og krefjist venjulegs lífs á ný. Fólk verður ekki kúgað til að hugsa á ákveðinn hátt, þótt málstaðurinn virðist vera góður í upphafi. Það hugsa ekki allir eins, sem betur fer. Allar byltingar eru teknar í gíslingu af fámennum hópi manna, sem gengur vel í upphafi við að kúga aðra með hnefann á lofti, en meirihlutinn gefst upp á endanum og þessir menn verða fjarlægðir. Hvað stendur þá eftir?

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR