Fyrirhugaðar skipulagsbreytingar í Hamraborg í Kópavogi verða kynntar íbúum núna á fimmtudaginn á fundi sem streymt verður á netinu.
Tillögurnar eru umdeildar og hefur hópur íbúa stofnað baráttusamtök gegn breytingunum á facebook, undir heitinu Vinir Hamraborgar.
Í tilkynningu frá Kópavogsbæ er tekið fram að hægt sé að senda inn fyrirspurnir meðan á fundinum stendur.
Kynning bæjarins á fundinum:
Kynningarfundur um skipulagsbreytingar á Hamraborg – miðbæ, Fannborgarreit og Traðarreit vestur, verður haldinn fimmtudaginn 14.janúar næstkomandi milli 16.30 og 18.00.
Fundurinn verður í beinu streymi sem um vef Kópavogsbæjar. Þá verður upptaka af fundinum aðgengileg á vefsíðu bæjarins og kynningarefni sömuleiðis að loknum fundi.
Á meðan á fundi stendur verður hægt að senda fyrirspurnir til starfsmanna skipulags- og byggingardeildar á tölvupóstfangið skipulag@kopavogur.is og verður þeim svarað eftir föngum.
Vakin er athygli á því að athugasemdir og ábendingar skulu hafa borist skriflega til skipulags- og byggingardeildar Umhverfissviðs, Digranesvegi 1, 200 Kópavogi eða á netfangið skipulag@kopavogur.is eigi síðar en kl. 15:00 þriðjudaginn 2. mars 2021.
Tillögur að breyttu skipulagi Hamraborgarsvæðis eru aðgengilegar á vef Kópavogsbæjar.