,,Áfram, Gúndi!“, hefst grein sem fjallar um mögulegt forsetaframboðs Guðmundar Franklíns Jónssonar í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að á þessum vettvangi hafi verið gefið í skyn í gær að sigurlíkur hans í forsetakosningum væru ekki yfirgnæfandi. Heldur þvert á móti litlar sem engar. ,,Er Gúndi hér með beðinn afsökunnar á þessum miskilningi og hann eindreginn hvattur til að lýsa yfir framboði. 400 milljónir hvað?“ Undir skrifar arib@frettabladid.is
Guðmundur var ekki lengi að svara fyrir sig á Facebook og telur að Helgi Magnússon, styrktaraðili núverandi forseta og eigandi Fréttablaðsins, sé greinilega kominn með sig á heilann því nú birtist hver greinin á fætur annarri honum til heiðurs í blaðinu.
,,Ef ásinn þeirra á hendi er að væna mig um að valda kostnaði fyrir þjóðina, bjóði ég mig fram, þá hef ég nú áhyggjur af því hvert lýðræðið í landinu er að fara. Heldur elítan virkilega að þau geti hrætt okkur frá því að nota stjórnarskrárvarinn rétt okkar til framboðs og kosninga? Vilja þau sem sagt að við hættum alfarið að halda kosningar og afhendum þeim bara lyklana að landinu án nokkurrar mótbáru?….Þjóðin þarf eitthvað allt annað en já-mann elítunnar á Bessastöðum. Málskotsrétturinn er í húfi og ég, eins og fleiri landar mínir, efast stórlega um áhuga núverandi forseta á honum. Ég fagna því þess vegna að nú þegar sé kominn frambjóðandi sem storkar peningaöflunum í samfélaginu og býst allt eins við að þegar fram líði stundir verði þeir fleiri.“
Greinilegt er að menn eru farnir að hnykkla vöðva og koma sér í kosningagír. En burtséð frá þessu hnippingum, þá er velt þarna upp kostnaðinn við forsetakosningar. Talað er um 400 milljóna kostnað við forsetakosningu og gefið í skyn að kannski væri best að sleppa þeim og spara aurinn. Guðmundur eigi ekki möguleika. En hvað ef aðrir bjóði sig fram? Eru þeir ekki verðugir að boða verði til kosninga? Er Guðni Th. Jóhannesson svona öruggur með sigur, að það taki því ekki að kjósa? Fékk hann meirihluta kjósenda á bakvið sig í seinustu kosningum? Nei, og væri því ekki betra að hann fengi afdráttarlausan stuðning nú sem sitjandi forseti? Helst yfir 50% stuðning og þar með meirihluta þjóðarinnar?
Ef þetta er raunverulegt viðhorf hjá einhverjum, kosnaðurinn sé einhver fyrirstaða, þá er það ekki forsvaranlegt. Lýðræðið kostar! Frelsið kostar! Við sem borgarar þessa lands, ekki þegnar, höfum þann rétt og í raun mannréttindi að fá að kjósa leiðtoga landsins beint. Eina beina lýðræðið sem er í boði á Íslandi eru forsetakosningar.
Guðni Th. Jóhannesson fagnar eflaust að endurnýja umboð sitt og fá verðugt eða óverðugt mótframboð. Þjóðin kýs og hún ræður. Áfram lýðræði!