Tala smitaðra og innlagðra lækkar víðast hvar í Evrópu

Svo virðist sem kórónaveirufaraldurinn sé í rénum í nokkrum ríkjum Evrópu. Tölur frá Danmörku, Noregi og Ítalíu sýna að staðfestum smitum fer fækkandi. 

Danir eru bjartsýnir á að lækkandi tölur séu að endurspegla raunveruleikann því í átta daga í röð hafa tölur um staðfest smit og innlagnir á sjúkrahús verið á niðurleið. Í Noregi eru menn líka bjartsýnir því tölur sýna að staðfest smit virðast vera lægri í dag en í gær. Þar munar kannski ekki miklu en það eru 18 færri smit í dag en á sama tíma og í gær. Á Ítalíu merkja menn örlítið fall í tölum á látnum frá því í gær en finnst mönnum samt nóg um því í dag eru 605 látnir vegna veirunnar. 

Ekkert lát á faraldrinum í Bandaríkjunum

Mynd: Lucas Jackson af vef NRK.

Í Bandaríkjunum er farið að taka fjöldagrafir á lítilli eyju við New York. Þar eru lagðir til hinstu hvílu útigangsmenn og fólk sem ekki á ættingja sem getur séð um útför þeirra.  Reyndar hefur þessi eyja, Hart Island, áður fengið sama hlutverk í sögunni. Í yfir 100 ár hefur hún verið notuð í sama tilgangi. Hinir látnu eru settir í kistu með nafni hvers og eins grafið á kistulokið. Kistunum er svo raðað upp í röð í einni stórri sameiginlegri gröf og mokað yfir. Dauðsföllin eru orðin svo yfirgengilega mörg á dag að borgarráð New York hefur sent út neyðarkall til annarra bæja og borga um að senda vanan mannskap frá útfaraþjónustum til að hjálpa til. Reiknað er með að grafa 5000 manns á Hart Island á  næstu dögum. 

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR